26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (441)

11. mál, þjóðabandalagið

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það getur engum dulizt, að viðskipti hverskonar milli okkar lands og annara hafa óðum farið vaxandi síðari árin. Bæði valda því þær breytingar og bætur á samgöngum bæði í lofti og á legi, sem fært hafa okkur nær öðrum löndum, og sömuleiðis hefir aukin starfsemi og framfarir síðustu ára aukið viðskipti okkar út á við. Um leið og viðskiptin hafa vaxið svo stórum stigum, höfum við með hverju ári átt fleiri mál að ræða við ríkisstjórnir viðskiptalandanna og opinberar stofnanir annara þjóða. Þótt það sé ekki orðið langt tímabil, sem ég hefi átt við þau mál, hefi ég samt veitt því athygli, að slíkum málum hefir alltaf farið fjölgandi og vinna við þau vaxið. Og þetta hlýtur að halda áfram að vaxa.

Aldrei hefir þjóðinni verið gefinn jafnmikill gaumur og sómi sýndur og á alþingishátíðinni sumarið sem leið. Það tillit, sem tekið var til okkar við þau hátíðarhöld, og kynnin, sem umheimurinn fékk þó af landinu og þjóðinni, breyttu aðstöðu Íslendinga svo mjög, að margir litu þannig á, að beint hefði legið við, að Íslendingar tækju þá þegar ákvörðun um þátttöku í því samstarfi þjóðanna, sem Þjóðabandalagið heldur uppi.

Nú hefir það gerzt, að ég hygg í fyrsta skipti, að Íslendingum hefir verið boðin þátttaka í þeim „ökonomiska“ fundi, sem haldinn verður að tilhlutun Þjóðabandalagsins nú á næstunni, og hefir þegar verið ákveðinn maður til að taka þátt í honum fyrir hönd Íslendinga. Á því og fleiru getum við séð, hve Íslendingum er veitt meiri athygli en áður.

Í nefnd þeirri, sem átti að velja mál til að gera ályktanir um á alþingishátíðarfundi í sumar, var þetta mál talið útilokað, af því að þar var ekki hægt að taka til umræðu önnur mál en þau, sem fullt samkomulag var um. En nú er ekki ástæða til að fresta málinu þess vegna.

Þegar um það er að ræða, hvort Íslendingar eigi að ganga í Þjóðabandalagið, veit ég, að engum Íslendingi dettur það í hug með öðru móti en að Íslendingar verði þar algerlega jafnréttháir og aðrar þjóðir. Nú er talið, að þetta geti orðið á þeim grundvelli, og ríkisstjórnin álítur, að ekkert sé því til fyrirstöðu, hvorki formlega né efnislega, og því aðeins er þessi till. borin fram.

Eins og kunnugt er, hefir hvert ríki eitt atkvæði, og aldrei meira né minna. Og Norðurlönd og Holland hafa verið í bandalagi sín á milli á fundum Þjóðabandalagsins og ekki haft lítil áhrif á ýms mál. Ég hefi átt samtöl við ýmsa stjórnmálamenn á Norðurlöndum, og hafa þeir óskað þess mjög, að Ísland kæmi þarna með í hópinn. Því að þeir telja líklegt, að ef Íslendingar fengju sinn fulltrúa, mundi hann vilja starfa með þeirra mönnum, og hann mundi geta styrkt þann flokk svo, að um hann munaði meir en áður. Ég trúi ekki öðru en að flestir hv. þm. vildu, að Íslendingar ættu slíkan fulltrúa til að tryggja rétt okkar og styðja góð málefni frændþjóða okkar.

Það hefir komið fram í blöðum og umræðum bæði hér og annarsstaðar, að þegar er samningar leyfa, muni verða talið sjálfsagt, að við tökum öll utanríkismál í eigin hendur. En þetta getur ekki orðið undirbúningslaust. Ég lít svo á, að innganga í Þjóðabandalagið geti orðið einhver bezti undirbúningurinn. Þegar að kemur, þurfum við að eiga hæfilega marga menn, sem hafa þekkingu á utanríkismálum og kunnugleika erlendis, menn, sem eru persónulega kunnugir útlendum stjórnmálamönnum, svo að þeir eigi aðgang að samstarfi við þekkta, mikilsráðandi menn. Þegar Norðmenn voru að taka þessi mál í eigin hendur, reyndist þeim ómetanlegt að eiga menn, sem áttu kynni og persónuleg sambönd við þau stórmenni stærri þjóða, sem stjórnað gátu rás viðburðanna og miklu til leiðar komið.

Um kostnað af þessu verð ég að vísa til grg. Að vísu hafa ný útgjöld alltaf mikið að segja fyrir fámenna þjóð. En ég tel, að fyrst og fremst krefjist þjóðarmetnaður Íslendinga þess, að við látum utanríkismálin meir til okkar taka, og bæði hygg ég, að þetta mundi færa okkur aftur fyllilega endurgjald kostnaðarins, og að hitt verði ekki metið, hvað undirbúningurinn, sem þetta aflar okkur, getur orðið dýrmætur.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja að fleiri atriðum. Ýmislegu í sambandi við þetta mál er þannig háttað, að rétt er að fjölyrða ekki um það, að svo stöddu, heldur ráða fram úr því innan flokkanna, eins og venja er um mörg utanríkismál. Þetta mál ætti eiginlega að ganga til utanríkismálanefndar, þótt hún hafi að vísu þegar fjallað um það. Þingsköp eru að vísu því til fyrirstöðu, þar sem hún er kosin af Sþ. En hér mætti e. t. v. veita afbrigði frá þingsköpum. En ekki er ómögulegt að vísa málinu til n. með þeim fyrirvara, að hún leiti álits utrmn. Ég skýt því til hæstv. forseta að skera úr, hvort sé tæknilegra.