26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (443)

11. mál, þjóðabandalagið

Haraldur Guðmundsson:

Ég hefði kosið fyllri og ítarlegri greinargerð með þessu merka máli. Að vísu hefir verið rætt allmikið um það í blöðum og á fundum, og hafa margir látið það í ljós, að tvímæli myndu leika á því, hver réttindi og skyldur Íslendingar öðluðust og tækju á sig með því að ganga í Þjóðabandalagið. Vegna þess hafði ég búizt við að hæstv. stj. myndi láta greinileg svör við þessum spurningum fylgja till. Það eru mér því vonbrigði, hve grg. er ófullkomin.

Hv. þm. Dal. minntist á eitt mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við þetta mál. En það er: Hvaða áhrif hefir það á hlutleysisyfirlýsingu Íslands, að landið gengur í Þjóðarbandalagið?

Samkv. samþykktum Þjóðabandalagsins verður ekki annað séð en Íslandi mundi skylt að taka þátt í hernaðarráðstofunum, er bandalagið ákvæði. En nú hefi ég heyrt, að það sé upplýst orðið, að Ísland þurfi ekki að taka virkan þátt í hernaði, og ekki að koma upp herliði, þótt það gangi í Þjóðabandalagið. Tel ég sennilegt, að þetta sé rétt, því að ella myndi hæstv. stjórn varla hafa flutt till. En um þetta þarf að liggja fyrir skýlaus yfirlýsing og óvefengjanleg.

En þó að við getum á þennan hátt verið hlutlausir í vopnastyrjöldum, getum við þá komizt hjá því að taka þátt í viðskiptastriðum? Og ef til vopnaðrar styrjaldar kemur, þurfum við þá ekki að leggja land vort undir her og flota, ef Þjóðabandalagið krefst þess?

Það er alveg nauðsynlegt að fá rækileg svör og upplýsingar um þessi atriði áður till. kemur til afgreiðslu. Ég hefi heyrt fullyrt ýmislegt um þetta, en slíkar fullyrðingar þurfa að koma úr þeirri átt, að hægt sé að trúa þeim fullkomlega.

Hv. þm. Dal. gat þess, að vafasamt væri, hvort fulltrúar okkar færu á Þjóðabandalagsþingið, ef til kemur, í umboði íslenzku stj. eða danska utanríkisráðuneytisins. Ég held, að þetta atriði geti tæpast orkað tvímælis, en auðvitað hlýtur hæstv. stj. að vera innan handar að upplýsa um þetta.

Ég vil leyfa mér að gera eina fyrirspurn til hæstv. forsrh., út af einu atriði í greinargerðinni. Þar stendur í sambandi við Verkamálaskrifstofuna og Verkamálaþingið:

„Samkvæmt friðarsamningnum eiga að mæta á þessu þingi 4 fulltrúar fyrir hvert ríki, þar af tveir sem umboðsmenn ríkisvaldsins, einn tilnefndur að ósk verkamannafélaga og enn einn að ósk atvinnurekenda. Þessu ákvæði hefir í framkvæmdinni ekki ávallt verið fullnægt af minni, fjarlægari löndum“.

Mér finnst það liggja í þessum orðum, að hæstv. stjórn telji vafasamt, hvort Ísland myndi nota rétt sinn til þess að senda fulltrúa á Verkamálaþingið og að hæstv. stj. sé með þessu að benda á, að það sé eiginlega óþarfi fyrir svo „litla og fjarlæga þjóð“ sem okkur. En að mínu áliti mælir það einmitt mest með því, að Ísland gangi í Þjóðabandalagið, að þá fáum við réttindi til að senda fulltrúa okkar á verkamálaráðstefnurnar, rétt, sem ég tel, að sjálfsagt sé að nota til hins ítrasta, ef á annað borð er samþ. að ganga í bandalagið. Við erum mjög á eftir öðrum þjóðum í verkamálum og væri okkur án efa mikill styrkur að því að njóta aðstoðar verkamálaráðsins og leiðbeininga á fjölmörgum sviðum.

Ég vildi gjarnan fá að vita um afstöðu hæstv. stj. til þessa atriðis, og vona ég, að hæstv. forsrh. skýri frá, hver hún er.

Loks mælist ég til þess, að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, afli sér sem beztra upplýsinga um þau atriði, sem ég hefi drepið hér á. Ég er samþykkur því, að till. fari til utanríkismálanefndar, hvort hún leggur lykkju á leið sína og fer fyrst til allshn., geri ég ekki að ágreiningsatriði.