26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (452)

42. mál, lyfjaverslun

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Á þingi 1926 var borið fram í Ed, frv. um einkasölu á lyfjum, hjúkrunargögnum og umbúðum. Þetta frv. var að mestu leyti shlj. frv. því, sem Guðmundur Björnsson landlæknir, þá alþm., flutti árið 1921, um einkasölu á lyfjum. Í grg., er fylgdi frv. 1921, var þess getið, að árlega væru fluttar inn vörur af þessu tægi fyrir ¾ úr millj. króna. Hve mikið þessi innflutningur hefir aukizt síðan, er ekki fullkunnugt um, en það má teljast líklegt, að innkaupsverð lyfja, umbúða og hjúkrunargagna sé nú ekki undir 1 millj. kr., miðað við að hann hafi verið um ¾ millj. 1921.

Álagning á þessar vörur er gífurleg og mönnum blandast ekki hugur um, að verð á lyfjum er afarhátt. Þar með er þó ekki endilega sagt, að þeir, sem reka lyfjaverzlunina hér, hafi gífurlegan hagnað af henni. Samt verður því ekki neitað, að lyfjaverzlun hefir, með þeim sérréttindum, sem henni fylgja, verið einhver allra ábatavænlegasta verzlun hér á landi, og á henni hafa margir menn grætt stórfé á skömmum tíma; fé, sem þeir hafa haft af veikum mönnum og konum.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, hversu ósæmilegt það er, ef lyf og hjúkrunargögn eru seld dýrara en þörf væri á, og þannig okrað á þeim vörum, sem sjúkir menn og sárir þurfa nauðsynlega með. Fátt ætti mönnum að vera ógeðfelldara en að vita til þess, að slík verzlun sé rekin sem gróðaverzlun, til að raka saman fé. Til sönnunar því, að verð á lyfjum sé óhæfilega hátt, vil ég leyfa mér að vísa til bréfs, sem Læknafelag Íslands sendi 27. marz 1929 til allshn. Ed., sem hafði þá til meðferðar frv. um einkasölu ríkisins á lyfjum. Þar stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Í vorum augum er það megin málsins, að unnt sé að færa hið afarháa lyfjaverð niður“.

Hér er það sagt alveg skýlaust af læknum, sem ættu að vita manna bezt um þetta, að verið sé „afarhátt“. Um lyfjataxtann segir í sama brefi, að hann sé gerður í „blindni og að mestu eftir danska taxtanum“, vegna þess að yfirvöldin, sem taxtann ákveða, hafi enga hugmynd um innkaupsverð lyfjanna.

Læknafélagið heldur því fram, að einkasalan geti orðið til að lækka lyfjataxtann. Hinsvegar barst sömu nefnd bréf frá Lyfsalafélagi Íslands, sem mælir á móti því, að tekin sé upp einkasala, og telur víst, að öll lyf verði þá dýrari og lyfjaverzlunin lakari en ef þeir héldu verzluninni áfram, sem nú hafa hana. Þarf að sjálfsögðu engan að undra, þótt afstaða lyfsalanna til málsins yrði þessi.

Málinu lyktaði þannig á þinginu 1929, að frv. var afgr. með svo kallaðri rökstuddri dagskrá, sem, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti fara fram endurskoðun á núgildandi lyfjataxta og athugi, hver ráð muni vænlegust til þess að lækka verð lyfja fyrir almenning, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Það þótti sýnt á Alþingi í fyrra, að ríkisstj. hefði ekkert gert til að framfylgja því, sem lagt hefir verið fyrir hana í þessari svokölluðu dagskrá. Það kann að vera, að hún hafi látið endurskoða þágildandi lyfjataxta, en ekki verður séð, að hún hafi athugað neitt, „hvaða ráð mundu vænlegust til þess að lækka verð á lyfjum fyrir almenning“, sem þó var lagt fyrir hana að gera. Þess vegna fluttum við, flm. þessarar till., á þinginu í fyrra samhljóða till., þar sem skorað var á ríkisstjórnina að láta athuga gildandi lyfjataxta, gæði lyfja og fyrirkomulag lyfjaverzlunarinnar, með það fyrir augum, að finna ráð til að lækka verðið, og leggja árangur þeirra athugana og tillögur til umbóta fyrir næsta Alþingi. Mátti því skoða þessa till. sem einskonar áréttingu á dagskrártill. frá 1929.

Nú á síðustu árum hefir orðið breyting á lyfjaverzlun í Reykjavík. Til skamms tíma var ekki nema ein lyfjabúð, og enginn kvartaði undan því, að hún gæti ekki séð öllum fyrir lyfjum. Nú eru þær orðnar fjórar. Það liggur í augum uppi, að við þetta hlýtur kostnaðurinn að margfaldazt, því að það er mikill kostnaður því samfara að reka lyfjaverzlun með öllum þeim dýru áhöldum, mikla húsnæði og mannafla, sem til þess þarf.

Þess má enn geta, að síðan frv. um einkasölu var flutt á þinginu 1929 hafa nýjar upplýsingar fengizt um þessi efni. Í einu tímaritanna hér var um áramótin 1929-'30 birt einkar fróðleg og merkileg grein um lyfjaverzlun og tilbúning lyfja. Grein þessa ritaði einn hinn færasti læknir hér á landi. Hafði hann þá nýlega dvalið erlendis og kynnt sér þessi mál, sem hann lengi hefir haft mikinn áhuga fyrir. Í greininni segir hann, að tilbúningur og verzlun lyfja sé mjög á eftir tímanum hér á landi. Erlendis sé lyfjatilbúningur að miklu leyti rekinn sem stóriðja, flestar algengar lyfjategundir séu búnar þar til í stórum verksmiðjum, af hinni mestu nákvæmni undir öruggu eftirliti, og með öllum nýtízku verkfærum og vinnuaðferðum. Verða þessi lyf bæði öruggari og ódýrari en ef þau eru búin til með miðaldaraðferðum. Verksmiðjurnar senda lyfin altilbúin í söluumbúðum, svo að þau megi afhenda þannig beint til sjúklinganna. Þá getur læknirinn þess, að lyfin mundu verða ódýrari, ef allar þessar dropatalningar og pillutilbúningur hyrfi eða minnkaði að mun. Mætti þá spara mikið af þeim kostnaði, sem nú er lyfjaverzluninni samfara. Og með því að fækka lyfjabúðum, t. d. hér í Reykjavík, mætti spara stórfé í mannahaldi og húsnæði.

Þetta segir þessi merki læknir um þetta mál, og er hver maður sjálfráður, hve mikið hann leggur upp úr orðum hans. En hitt getur ekki orkað tvímælis, að mikil ástæða er til að rannsaka lyfjaverzlunina, hvort ekki er hægt að benda þar á einhverjar betri leiðir. Og einmitt í því sambandi er alveg sérstök ástæða til að taka bendingar og tillögur læknisins til rækilegrar athugunar.

Ég gat þess í upphafi ræðu minni, að innkaupsverð á lyfjum, hjúkrunargögnum og umbúðum mundi varla vera undir 1 millj. króna. Ekki er ótrúlegt, að í lyfjabúðum sé útsöluverðið yfir 100% hærra en innkaupsverðið, og er það þá mikill skattur, sem sjúkir menn og sárir verða þar að gjalda.

Ég vil að lokum vænta þess, að þetta mál fái betri undirtektir nú heldur en í fyrra. Vert er og að geta þess, að í fyrra var málið drepið með atkvæðum minni hl. hv. deildarmanna. Tel ég því góða von til þess, að afgreiðsla þess verði önnur og betri að þessu sinni og að hv. dm. leyfi málinu fram að ganga.