26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (455)

42. mál, lyfjaverslun

Magnús Torfason:

Ég hafði búizt við, að þetta mál yrði tekið af dagskrá, var sem hlutaðeigandi ráðh. er ekki viðstaddur. Það er ekki ástæða fyrir mig að taka svari hans hér, en af því að ég er kunnugur þessu máli, finnst mér rétt að láta ekki fara fram atkvgr. um það, án þess að ég leiðretti það, sem ekki var farið rétt með.

Hv. flm. gat þess, að bréf hefði komið frá Læknafélagi Íslands 27. marz 1929, þar sem ýtt hefði verið undir þetta mál. Hann gat þess einnig, að málið hefði verið tekið upp á því þingi. Þessi málaleitun hefði orðið til þess, að áskorun hefði verið send til ráðherranna, en hún mundi ekki hafa borið mikinn árangur. En ég get upplýst það, að hún hefir ekki verið árangurslaus. Mér er kunnugt um það, að nýr lyfjataxti var settur fyrir landið, þar sem verðið var lækkað um 20%, og mun hann hafa gengið í gildi í janúar í fyrra. Ég held, að ég muni það ekki skakkt, að ég hafi seð það í Lögbirtingablaðinu, en man ekki til, að ég hafi annarsstaðar seð um það getið. Ég hefi furðað mig á því, að hv. flm. og jafnaðarmenn hér á þingi og flokksmenn þeirra úti um land, góðir og gegnir, skuli hafa haft svo lagt um þetta mál og ekki tileinkað sér þakklæti til handa, þegar taxtinn var lækkaður. En hvað sem öðru líður, þá býst ég við, að aðaltilgangur þessa máls sé að fá verð á lyfjum lækkað.

Ég vil víkja að því aftur, að mér þætti réttara, að ekki væri gengið svo frá þessu máli, að hæstv. dómsmrh. geti ekki skýrt frá þessu atriði málsins.

Um lyfjaverksmiðjurnar er það að segja, að það er mikið til af þeim um heim allan, en þær reynast misjafnt. Ég þori ekki að fullyrða, en mig minnir, að einmitt í þeirri ritgerð, sem áðan var vitnað til, hafi staðið, að það væri ekki nema aðeins einstöku verksmiðjur, sem verzlandi væri við, hinar væru svo ótryggar. Það er til grúi af verksmiðjum út um allan heim, sem ekkert gagn er í og ekkert gera nema auka skuldir manna. Ég segi þetta út af því, að mér skilst, að ætlazt sé til þess, að árangurinn af þessum rannsóknum, sem gera á, verði lagður fyrir næsta þing. Þetta er mikið vandamál, og þarf að ganga í margar grafgötur, áður en því verður ráðið til lykta.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að í Danmörku mun vera hærri lyfjataxti en hér á landi, og þó er meiri dýrtíð hér en þar. Nú vita menn, að í því landi hefir verið og er nú merk stjórn, sem ábyggilega vill sjá hag lítilmagnans borgið. Ég hygg, að hún hafi alstaðar verið lofuð fyrir það. Þar hefir verið á dofinni ekki aðeins endurskoðun á danska lyfjataxtanum, heldur einnig, hvernig færa megi verzlunina í betra horf. Þó hefir ekkert orðið úr því ennþá. En eins og þessum málum er nú komið hér, þá hefir verkamannaflokkurinn þokað þessu máli lengra áleiðis en sú mikla verkamannastjórn í Danmörku hefir getað gert í sínu landi. Ég vil svo að endingu endurtaka þá till., að ekki verði greidd atkv. um þetta mál, fyrr en hæstv. dómsmrh. getur gefið upplýsingar í því og skýrt frá afstöðu sinni til þess.