26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (462)

43. mál, lækkun vaxta

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þessi till. er enginn nýr gestur í þessari deild, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að segja um hana nema örfá orð.

Ég er sammála flm. till. í aðalatriði þessa máls, sem sé því, að það sé æskilegt, að hægt væri að lækka útlánsvexti í lánsstofnunum í landinu. En því er nú ekki að leyna, að það er ekki mikið, sem ríkisstj. getur í rauninni gert í þessu máli. Alþingi hefir sjálft, með lögum um Landsbankann, lagt það í hendur bankaráðs Landsbankans, að ákveða vexti hans, að því leyti, sem það getur við það ráðið. Og ríkisstj. getur engar fyrirskipanir gert um þetta. Enda álít ég, að það fyrirkomulag, að ríkisstj. gæti á hverjum tíma skipað fyrir um vexti í blóðbankanum, væri ekki sérstaklega heppilegt. Nú er það svo, að þó að ákvörðun um vexti í Landsbankanum sé lögð undir bankaráðið með lögum, eru í rauninni eins mikið önnur öfl, sem koma þar til greina, og bankaráðið hlýtur undir öllum kringumstæðum að haga sér eftir fjármálaástandinu í landinu.

Þó að Landsbankinn sé þjóðbanki og seðlabanki, verður þó að gæta þess, að hann er ekki hliðstæður annara þjóða seðlabönkum, eins og t. d. Englandsbanka, vegna þess að Landsbankinn hefir með höndum margvísleg og áhættumikil viðskipti. Þess vegna verður hann alltaf að haga sínum vöxtum í samræmi við það. Auk þess sem Landsbankinn rekur mikil áhættuviðskipti, er hann, eins og kunnugt er, aðalseðlabanki ríkisins, og með því er honum að miklu leyti lögð á herðar ábyrgð á stjórn peningamálanna í landinu, og það er þingið sjálft, sem hefir fengið honum þetta vald í hendur.

Stjórn Landsbankans verður því ætíð að haga sínum framkvæmdum á þá lund, að það verði bæði bankanum og þjóðinni svo hagkvæmt sem unnt er. (GunnS: En þegar hún gerir það ekki?). Ég vil benda á, að það meginlögmál, sem ræður um hag og lága vexti, er eftirspurn og framboð á peningum. Þegar peningarnir leggjast upp og hætta að starfa, lækka vextir, en sé það gagnstæða uppi á teningnum, hljóta vextirnir að hækka. Ég held, að mönnum hljóti að vera ljóst, að síðara ástandið sé hér fyrir hendi. Hér þurfa atvinnuvegirnir á miklu fé að halda, og þess vegna er mikil eftirspurn eftir lánum. Þess vegna virðist í fljótu bragði, að skilyrðin fyrir lágum vöxtum séu ekki fyrir hendi.

Hinsvegar skal ég taka það fram, að ég set mig alls ekki á móti samþykkt þessarar till. Ef hún verður afgr. til stj., geri ég ráð fyrir að senda hana jafnskjótt til stj. Landsbankans. Hvern árangur það ber, get ég ekkert fullyrt um, en ég þykist fullviss um það, að bankastj. tekur þetta mál til athugunar og ræður því til lykta á þann bezta hátt, sem hún sér sér fært eins og nú er ástatt.