31.03.1931
Efri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Baldvinsson:

Við 2. umr. þessa máls hér í þessari hv. d. flutti ég till., sem fór í svipaða átt og till. sú, sem samþ. var í Nd, litlu síðar. Ég þóttist nokkurnveginn viss um, að frv. eins og það var þá úr garði gert mundi ekki ganga gegnum hv. Nd. nema því aðeins, að einhverjar breyt. yrðu gerðar á því, í svipaða átt og ég bar fram. Enda varð sú raunin á. Hv. Nd. samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. brtt. um að þetta skyldi bundið við fjárlagaveitingu.

Nú hefir komið fram brtt. frá meiri hl. menntmn., þar sem frv. er fært í dálítið skipulegra horf en áður var, að öðru leyti en því, að nú er tala prestanna, sem veita á styrk til utanfarar, fastákveðin, þannig að það verða skilyrðislaust 2 á ári. En hitt er tekið út, að rétta skuli ákveðið í fjárlögum. Þetta þykir mér verra og mun ég því greiða atkv. móti því.

Ég vildi spyrja hv. frsm. n., hvort hetta hafi verið rætt í menntmn. Ég hefi grun um, að þessi till. hafi aldrei verið rædd í n. á löglegum fundi, og hún sé því frá þessum tveimur hv. þdm., sem að vísu eru meiri hl. n., ef þeir starfa í nafni hennar. Till. má því sjálfsagt skoðast frá hv. 6. landsk. og hv. 3. landsk., en ég hygg, að menntmn. hafi ekki um hana fjallað.

Það skiptir engu máli hér um efni till. Hitt skiptir mestu máli, að þeir, sem þykjast unna málum prestanna, eru með þessari brtt. að stofna þessu máli þeirra í háska. Ég býst nefnilega við, að í hv. Nd. fái frv. þessa breytingu aftur, og ef svo fer, þá verður frv. að fara í sameinað þing, en það hefir aldrei þótt lífvænlegt fyrir frv., því að þar þarf svo mikinn atkvæðamun til samþykktar.

Ég hygg, að hv. flm. brtt. eigi það á hættu, að frv. verði fellt, ef þessari brtt. er haldið til streitu. Mér þykir líklegt, að brtt. verði samþ. hér í þessari hv. d., og ef frv. svo verður fellt, þá er það hv. meiri hl. menntmn., sem ber ábyrgð á því.