02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (470)

43. mál, lækkun vaxta

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það var hv. þm. Borgf., sem spurðist fyrir um það, hvað stj. hefði gert í þessu máli á árinu sem leið. Mér fyndist ekki undarlegt, þó að spurt væri víðtækara, t. d. um ástand bankanna og peningamálanna í landinu yfirleitt, og hver ráð væru til að lækka útlánsvextina. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, er nú breytt afstaða þings og stj. gagnvart Landsbankanum með lögunum frá 1928, og raunar hygg ég, að allir hafi skilið lögin þannig, að bankinn ætti ekki að vera leiksoppur í höndum þings og stj., enda teldi ég það mjög óheppilegt, að stj. grípi inn í starfsemi bankans á líkan hátt og þennan.

Alþingi hefir kosið 15 manna nefnd sem yfirstjórn bankans, og hún hefir aftur kosið bankaráð. Og það ráð hefir á hendi aðalumsjón með starfrækslu bankans, og þess vegna er það ekki létt verk fyrir þingið, að skipa til um hana eða fara að reka frá bankaráðið eða bankastj., enda væri það að mínu áliti mjög óheillavænleg ráðabreytni. (SE: Já, þegar flokksmenn hæstv. ráðh. eru komnir í þær stöður. BÁ: Ekki nema tveir af fimm í bankaráðinu). Það skiptir engu máli, hverjum flokki þeir tilheyra. Menn verða að athuga, hvað verður úr því, ef bankaráð og bankastjórn Landsbankans eru rekin, og gæta þess, að ekki dugir að gera alltaf það, sem þægilegast þykir í svipinn.

Þegar spurt er um, hvað stj. hafi gert skal ég geta þess, sem annars er vel kunnugt, að ástæður bankanna í landinu hafa verið þær, að ríkissjóður varð að leggja báðum aðalbönkunum fé. Ef þeir hefðu báðir verið vel stæðir, hefði ekki þurft að gera þetta. En ég sé ekki, hvernig hefði átt að lækka bankavexti, a. m. k. meiri hluta ársins sem leið, meðan Íslandsbanki lá óstarfandi og Landsbankinn hlaut að taka á sig mikinn viðskiptaþunga vegna þess. Hv. 1. flm. þessarar till. sagði, að þjóðbankinn ætti ekki að vera knöttur í höndum framboðs og eftirspurnar á peningum. En ég held, að bankinn megi ekki verða knöttur í höndum neins flokks eða pólitiíkra skoðana.

Það kom í ljós við umr., að aðeins var talað um útlánsvexti, enda kom fram hjá flm., að hann taldi ekki þörf að lækka innlánsvexti. Nú er það víst, að ef útlánsvextir lækka, en ekki innlánsvextir, þá hlýtur útkoma bankanna að versna. Það hefir verið til þess ætlazt, að Landsbankinn gæti staðið straum af vöxtum af stofnfénu, sem ríkissjóður hefir lagt honum, en verði þessi ráðabreytni tekin upp, má búast við, að það skapi honum nokkra erfiðleika um vaxtagreiðslu. Þá hefir og ríkissjóður sett mikið fé fast í Útvegsbankanum, og þótt ekki megi gera ráð fyrir, að hann geti greitt mikla vexti af því, verður það enn síður, ef aðstaða hans verður gerð erfiðari með lækkun vaxta. Við þessu er auðvitað ekkert að segja, ef niðurstaðan verður sú hjá hv. þingmönnum, að betra sé, að ríkissjóður greiði vextina. (GunnS: En því mega ekki innlánsvextir lækka?). Hv. flm. gerði ekki ráð fyrir því, en ef svo væri gert, má gera ráð fyrir, að í jafnmiklu peningahungri og nú er mundu peningarnir hverfa úr bankanum — ég segi ekki, að þeir hyrfu úr landinu —, en þeir geta horfið í einhver viðskipti, þar sem bankarnir ná ekki til þeirra (GunnS: Þeir gera það nú, hvort sem er). Till. hefir komið fram um að vísa málinu í nefnd. Það tel ég rétt; þingið á að athuga gaumgæfilega málið áður en ákvörðun er um það tekin.