02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (473)

43. mál, lækkun vaxta

Sigurður Eggerz:

Hæstv. stj. virðist hafa lært töluvert á þeim tíma, sem liðinn er, síðan hún komst til valda. Muna það allir, að við síðustu almennar kosningar var talað um það af hálfu núv. stj. sem eitt af vanrækslu þeirrar stj., sem þá fór með völd, að vextirnir væru svona háir. Nú geri ég ráð fyrir, að hæstv. stj. sé það ljóst orðið, að vextirnir hreyfast eftir ákveðnu lögmáli, eru ávöxtur af ýmsum hreyfingum í fjármálum þjóðanna. A. m. k. var svo að heyra á ræðu hæstv. fjmrh., sem honum væri þetta ljóst orðið. Greinilegast kemur þetta þó í ljós, þegar litið er á landbúnaðarmálin, því að þar voru kosningaloforð stj. ákveðnust. Bændurnir hlýddu hugfangnir á þessi loforð stj. um góð vaxtakjör, enda á landbúnaðurinn erfiðast með að bera háa vexti. En hverjar urðu svo efndir stj. á þessum loforðum? Þær eru þannig, að vextirnir eru í veðdeildinni líkt og í veðdeild Landsbankans og 7% af víxillánum. Slík eru hin góðu lánskjör sem bændurnir njóta í Búnaðarbankanum. Það, að stj. hefir neyðzt til að setja vextina svo háa, ætti að opna augu hennar fyrir því, hve varhugavert er að gefa stór loforð, þó að í kosningahitanum sé. Annars eru hinir háu vextir ekki það, sem þyngst liggur á mönnum nú. Það er ýmislegt annað, sem er enn verra, og það er t. d. fjárskorturinn mikli. Hjá veðdeildinni fá menn ekki annað en bréf, sem svo er ekki hægt að selja, þannig að þeir menn, sem vilja byggja, fá hvergi peninga til þess. Veit ég þess dæmi, að sótzt er eftir lánum gegn 12% vöxtum með fyrsta veðrétti. Það er ekki hægt að fá grænan eyri, þó að margfaldar tryggingar séu í boði. Og undan þessu stynja menn miklu meir en undan hinum háu vöxtum. Auðvitað vonar maður, að úr þessu rætist sem fyrst, en ég vil leyfa mér að minna á það, að fyrirkomulag lánsstofnananna hér á landi stríðir á móti því, sem annarstaðar gildir. Ef horfið hefði verið að því ráði að stofna einn öflugan fasteignabanka, eins og till. komu fram um á sínum tíma, má vel vera, að hægt hefði verið að útvega markað fyrir bréf hans og draga þannig fé inn í landið, en í stað þess að setja þessi lán undir einn hatt, eru þau nú á þremur höndum. Það er eins og allt hafi verið gert, sem hægt var að gera, til þess að gera örðugleikana sem mesta um hagkvæm lán til fasteigna.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann hefir nú um stund starfað sem bankastjóri, og það var auðheyrt á ræðu hans, að honum var fullkomlega ljóst, við hve mikla örðugleika bankarnir eiga að etja.

Þegar litið er á bankalögin, er það ljóst, að það er bankaráðið eitt, sem hefir myndugleika til að ákveða vextina. Þingið hefir þar ekkert að segja. Get ég og fullkomlega fallizt á hugleiðingar hæstv. fjmrh. um það, að stj. og þing eigi ekki að vera að skipta sér af rekstri bankanna meira en brýn nauðsyn er a. Afskipti þingsins í þessa átt hafa fremur gert illt en gott til þessa. Yfirleitt hefir meðferð þingsins á bankamálunum verið svo óforsvaranleg oft og tíðum, að ekki er hægt að reikna út, hve mikið tjón hefir af hlotizt. Hæstv. fjmrh. segði, að bankarnir ættu að vera sjálfstæðar stofnanir, sem skipað væri út fyrir stjórnmálin. Ég viðurkenni, að svo þarf að vera. En ég gat ekki varizt þeirri spurningu undir ræðu hæstv. ráðh., hvort núv. stj. hefði nú lagt áherzlu á að halda bönkunum utan við stjórnmálin. Ég fæ ekki seð, að stj. hafi gert þetta. Hitt má vera, að hún ætli að gera það. Enda er slíkt sjálfsagt.

Ég skal vera hreinskilinn við hæstv. fjmrh. og segja honum undandráttarlaust þá gagnrýni, sem sett hefir verið fram á afskiptum núv. stj. af bönkunum.

Það er mikið talað um það, að Sambandið muni vera stærsti viðskiptamaður Landsbankans, en hæstv. stj. hefir séð svo um, að einn af aðalmönnum Sambandsins er form. í bankaráði bankans. Annar starfsmaður Sambandsins er formaður í bankaráði Útvegsbankans. Tal manna hnígur að því, að það sé óeðlilegt, að félagi, sem þarf á mestum stuðningi bankans að halda, skuli vera fengin aðalyfirráðin yfir bankanum. Menn hafa talað meira um þetta í seinni tíð, eftir að það vitnaðist, að Búnaðarbankinn hefði lánað Sambandinu 1½ millj. kr. Stríðir þetta auðvitað á móti öllum þeim reglum, sem ráða í fjármálaheiminum, að stærstu skuldunautum lánsstofnana séu fengin yfirráð þeirra í hendur.