02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (475)

43. mál, lækkun vaxta

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Dal. Hann talaði mikið um það, að stj. hefði lofað að lækka vexti, áður en hún komst til valda, skildist mér. Ég vil þá biðja hv. þm. Dal að skýra frá því, hvar og hvenær ég hafi gefið loforð um að lækka vexti. Ég heimta ekki, að hv. þm. skýri frá því nú þegar; hann getur fengið tíma til að leita um öll Alþt., ef hann vill.

Hv. þm. Dal. talaði um peningahungur hér á landi. Nú gætu jafnvel skilvísustu menn ekki fengið peninga. Mér skildist hv. þm. tala um þetta sem einsdæmi. En þetta er ekkert nýtt. Hér er oftast peningahungur, misjafnt að vísu. Það var peningahungur í ráðherratíð þessa hv. þm. Að vísu skal ég játa það, að þegar þessi hv. þm. var fjmrh., þá var bætt úr peningaskorti þjóðarinnar með því að gefa út ógrynni af seðlum. En reynslan sýndi, að þetta voru ekki peningar, og betur hefði verið, ef minna hefði verið gefið út.

Ég efast ekki um það, að þessi hv. þm. og ýmsir fleiri hafi margt við það að athuga, hvernig stj. skipar í stöður. Skal ég ekki fara út í það. Ég skipaði formann bankaráðs Útvegsbankans og ber ábyrgð á því. Þegar hv. þm. Dal. getur komið með sakir á hann, þá skal ég svara, en fyrr ekki.