02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (477)

43. mál, lækkun vaxta

Flm. (Magnús Torfason):

Ég skal ekki verða mjög langorður. — Hæstv. fjmrh. taldi það óheppilegt, að þingið skipti sér af bönkunum. Ég gæti nú fallizt á þetta með einu skilyrði, því, að þingið hefði aldrei þurft að koma nærri þeim. En þegar það rótar í þá milljón eftir milljón, þá ber því sannarlega að skipta sér af þeim, sé þeim ekki vel stjórnað. Það er nokkuð misskylt, að þingið eigi aðeins að ausa fé í bankana, en ekki skipta sér af þeim frekar.

Hæstv. fjmrh. sagði, að bankarnir ættu ekki að vera knöttur pólitíkra skoðana. Hver hefir talað um það? Einn hv. þm. hélt því fram, að ganga ætti þannig frá stj. bankanna, að hún yrði ekki knöttur þingsins. (MG: Framsóknarknöttur?) Það ætti þá að hafa sýnt sig í einhverju.

Eins og tekið hefir verið fram, er bankanefndin eingöngu skipuð þm., og hefir þingið því aðstöðu til þess að líta eftir bönkunum. Hér er því engin stefnubreyting á orðin.

Hv. 2. þm. G.-K. þarf ég litlu að svara. Hann hefir nú dregið mjög úr því hörmulega ástandi, sem hann sagði, að bankarnir væru í. (ÓTh: Nei, ég minntist ekki á það). Jú, tónninn var allur annar.

Annars leit helzt út fyrir, að hann teldi það allra meina bót að hafa háa vexti. Og annar hv. þm. taldi það Bramalífselixír við fjármálum þjóðarinnar að hafa háa vexti. En ekki er sama skoðunin uppi annarsstaðar. Stjórnir annara þjóða reyna allt, sem hægt er, til þess að lækka vextina.

Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa borið fram vilja kjósenda minna einu sinni og tvisvar, enda ekki fullreynt fyrr en í þriðja sinni.

Það er ekki rétt, að andað hafi kalt frá mér í garð bankastjóra Landsbankans. Ég fór virðulegum orðum um þá, þótt ég sé ekki sammála þeim um þetta atriði. En þessu mætti víkja til hv. 2. þm. G.-K.

Þá er ég kominn að hv. 3. þm. Reykv. Mér varð það á að hugsa: „Það er naumast, að það sé bankagorgeir í honum, piltar“. Hv. þm. hélt langan fyrirlestur um bankamál. En ég held, að ég hafi nú heyrt alla þessa bankavizku áður.

Hv. þm. byrjaði á því að segja, að ég hefði lýst yfir því, að bankaráðið mundi fúst til að lækka vextina. Þetta hefi ég aldrei sagt. (Jól: Ég hefi skrifað það). Mér er rétt sama, hvað þessir herrar þykjast hafa skrifað. Mín skoðun er alveg hið gagnstæða, og hafi hv. þm. virkilega heyrst þetta, þá verð ég að biðja hann að skafa betur innan á sér eyrun!

Hv. þm. sagði, að bankarnir ættu að róta út peningum á krepputímum. Nú á það svo að heita, að ríkið beri ábyrgð á bönkunum. Hv. 3. þm. Reykv. hefir þannig þá trúarjátningu, að bankarnir eigi að syndga upp á náðina. Hvað Útvegsbankann snertir, þá er það rökrétt afleiðing af orðum hv. þm., að hann vilji, að fjölgað sé ótryggu lánunum í bankanum og bankarnir eigi að hætta fé sínu meira á krepputímum en ella.

Þetta hefir ef til vill eitthvað við að styðjast. Við vitum, hvernig umhorfs var í Útvegsbankanum, þegar hv. 3. þm. Reykv. tók við. Og hann hefir ekki þurft að gera neinn gjaldþrota. Þeir hafa orðið það af sjálfu sér. En að fjölga ótryggu lánunum í bönkunum, er sama ráðið og að láta seðlapressuna ganga. Það er aðeins önnur hverfa á sömu voðinni.

Þá hélt hv. 3. þm. Reykv. langan fyrirlestur um það, að það borgaði sig ekki fyrir bankana að hafa sparisjóðsfé. Samt hafa nú bankarnir einmitt sótzt eftir sparisjóðsfé, og Útvegsbankinn hefir gefið út auglýsingar og lofað hæstum vöxtum. Þetta hefir þá ekki verið skoðun allrar bankastjórnarinnar. Annars vitum við það, að einfaldir sparisjóðir geta grætt með sæmilegri stjórn.

Ég hafði ekki dregið Útvegsbankann inn í þessar umr., og var því óþarfi fyrir hv. 3. þm. Reykv. að taka til máls. Og ef vextirnir verða lækkaðir, þá kemur það sér vel fyrir Útvegsbankann, því að hann skuldar Landsbankanum nokkrar milljónir. Ég leit svo á, að ekki væri ástæða til þess að blanda Útvegsbankanum inn í þetta mál, þar sem hann hlýtur að hafa hærri vexti.

Þá er það eðlilegt, að Útvegsbankinn verði að hafa hærri vexti en Landsbankinn, sem getur valið úr viðskiptamönnum. Ég gæti trúað, að Útvegsbankinn ætti erfiðast uppdráttar einmitt af þessum orsökum.

Hv. 3. þm. Reykv. virtist vera dálítið sárt um sparisjóðsvextina, því að hann lét svo um mælt, að ef innlánsvextir væru lækkaðir, yrði það til að auka framtak þeirra manna, sem peninga eiga í bönkunum. Það er vitanlegt, að lækkaðir vextir verða ávalt til að auka framtak manna, en ég get ekki séð fram á, að það sé skaðlegt landi, þar sem flest má heita ógert.

Ég vil minna hv. 2. þm. G.-K. á eitt atriði, áður en ég lýk máli mínu. Hann hefir lýst yfir því, að við flm., og þá sérstaklega ég, berum þessa þáltill. ekki fram af sannfæringu, heldur til að viðra okkur upp við kjósendur nú fyrir kosningarnar. Ég skal nú ekki koma með neinar slíkar getsakir í garð hv. 2. þm. G.-K. — ég trúi því, að hann sé 100% þjóðvinur —, en vil hinsvegar spyrja hann, hvort hann geti ekki gert þessari þjóð dálítinn greiða. Í fyrra var talað hér um bráðabirgðalán, sem stj. hafði tekið. Hv. 2. þm. G.-K. þóttu vextir af því of háir. Hann kvaðst hafa fengið tilboð um lán með 5% vöxtum. (ÓTh: Fáir ljúga meiru en helming!). Ég ætla þó, að ég fari hér með rétt mál. Nú vildi ég mælast til, að hann útvegaði bönkunum rekstrarfé með þessum vöxtum. Það ætti að geta orðið til þess, að lækka vexti þá, sem félag hv. 2. þm. G.-K. sjálfs verður að greiða af sínum miklu skuldum við bankana.