31.03.1931
Efri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Jónsson:

út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, að þessi brtt. væri ekki komin frá meiri hl. menntmn., skal ég geta þess, að hún var borin undir alla nefndina, en hv. þm. Ak. lýsti yfir því, að hann gæti ekki fylgt þessu. Meiri hl. n. kom sér svo saman um þessa brtt., eftir að það var augsýnilegt, að n. var klofnuð, enda hygg ég, að það sé venjan.

Hv. 2. landsk. sagði, að við hefðum það á samvizkunni, ef þetta frv. yrði fellt. En mér finnst, að frv. sé ekki svo mikils virði, ef ekkert lágmarksákvæði er í því, og er ég því fús til að taka á mig þá ábyrgð, sem af þessu kann að leiða.

Ég vona, að hv. deild sjái sér fært að samþ. þessa brtt., einkum þar sem í henni er farið bil beggja og tekin lægri tala um styrk prestanna.