03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (480)

43. mál, lækkun vaxta

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það eru aðeins nokkur orð, því að hv. þm. Mýr. hefir tekið margt af því fram, sem ég hafði ætlað að segja.

Hv. þm. Borgf. notaði sterk orð um það í gær, að þing og stj. gætu ráðið miklu um starfshætti og vaxtahæð Landsbankans. Hann sagði, að Landsbankastj. væri háð þinginu gegnum Landsbankanefndina. Úr því að hann heldur þessu fram, þá þarf ég ekkert við hann að ræða frekar um þetta mál, því að hann er sjálfur í nefndinni. (PO: Nei, ekki aðalmaður). A. m. k. varamaður, og hefir setið á fundi í nefndinni, að því er ég hygg. (PO: Nei). Hann getur því gert þær ráðstafanir þar, sem hann telur þurfa til þess að fá vextina lækkaða, og gæti sparað öll heilabrot og umstang í þessu máli á þessum vettvangi.

Hv. þm. Dal. var mikið niðri fyrir, er hann tók til máls, enda þótt honum láðist að mestu að koma að vaxtamálinu sjálfu. Hann lét allvígalega og talaði um það, að hann hefði steinrotað Framsókn í Dölunum með því að lesa upp eina ræðu eftir sig. Það er gott fyrir hv. þm. að þurfa ekki annað en að lesa upp gamlar ræður eftir sig og spara sér með því að láta verkin tala, sem hingað til hafa þagað. En mér er ekki grunlaust um, að það sé að myndast einhver hnoðri af ótta í hjarta hv. þm. um það, að fylgi hans í Dölunum muni ef til vill vera á fallanda fæti, og það færi betur, ef hv. þm. ætti ekki eftir að sjá það og sannfærast betur um það í sumar við kosningarnar.

Hv. þm. talaði um það af miklum móði, að það væri fjöldi manna, sem vantaði peninga og hefðu ágæt veð í höndum, en fengju ekki eyri hjá bönkunum. Það er einkennilegt að heyra hv. þm. Dal. tala með þvílíkum fjálgleik um góðu tryggingarnar. Hann er nú búinn að vera bankastjóri, í 6 ár og lét af því starfi fyrir ári: Eftir því, sem bezt verður séð, þá hefir þessi hv. þm. sem bankastjóri metið hin lélegu og ónýtu veð miklu meira en hin góðu veð. Vera má, að hann hafi viljað láta eftirmönnum sínum eftir hinar góðu tryggingar, en hann hefir þá gleymt að athuga það, að féð, sem átti að lánast út á þessar góðu tryggingar, var allt týnt hjá honum, þegar til þess átti að taka. Svo getur hv. þm. talað um mennina með góðu veðin, sem ekki fái lán hjá bönkunum. Það er leiðinlegt að sjá hv. þm. Dal. afhjúpa synduga fortíð sína frammi fyrir öllum þingheimi, eða gefa öðrum tilefni til þess, eins og hann hefir nú gert með þessu tali um góðu tryggingarnar, sem hann í sinni bankastjóratíð virðist ekki hafa komið auga á.

Þá kom hv. þm. inn á það, um hvað væri eiginlega talað, og var hann svo háfleygur og talaði með þvílíkum fjálgleik, að allir, sem á hlýddu, máttu þar vel kenna þm. Dal. Ég tók þá fyrst eftir því, að þetta var maðurinn, sem var að hlusta á þjóðina, en þegar þessi þm. kemst í það ástand að „hlusta á þjóðina“, þá verður hann allur að eyrum, og honum finnst í hrifningunni, að öll þjóðin skríði inn í þessi óhemjustóru eyru. En þetta er hörmulegur misskilningur hjá honum, því að þótt einhverjir kunni að skríða inn í þessi stóru eyru hans, þá er það ekki nema sáralítill hluti þjóðarinnar, og einmitt sá hluti hennar, sem eftir atvikum þarf ekki að taka mikið tillit til, sérstaklega um þessa hluti. Þótt þeir berji sér á brjóst yfir ranglæti núv. stj. og beri sig aumlega, og enda þótt hv. þm. gangi erinda þessara manna hér á Alþingi, þá hygg ég, að það hafi lítil áhrif á endanleg úrslit þessa máls.

Annars er það um mína afstöðu til þessa máls að segja, að ég hefi þegar oftsinnis lýst henni hér undir umr., og hefi í rauninni engu þar við að bæta. Ég held, að ég hafi tekið það fram áður, sem nokkru máli skiptir, og mun því sennilega ekki taka til máls oftar. Ég geri ráð fyrir því, að ef þessi till. verður samþ., þá muni ég senda hana þangað, sem hún á að ganga, og þar mun hún sjálfsagt verða tekin til athugunar, en um árangurinn get ég ekkert sagt að svo stöddu.