03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (481)

43. mál, lækkun vaxta

Sveinn Ólafsson:

Ég hafði ekki búizt við því, að þessi litla till. á þskj. 43 mundi reynast svo þung og erfið í vöfum sem þegar er komið í ljós. Hún hefir nú orðið þrídægruð, og verður ekki enn séð fyrir andann á orðaskaki því, sem hafið er í deildinni út af þessu máli.

Hæstv. fjmrh. og hv. flm. hafa réttilega á það bent, að ákvörðunarrétturinn um vaxtahæð sé í höndum bankaráðsins, en ekki landstj. En eigi að síður virðist mér, sem vel mætti samþ. þessa till., því að það bæri að skoða sem tilraun til þess að leita hófanna hjá þeim, sem valdið hafa í þessum greinum. Ég hélt, að þetta hefði mátt gera strax fyrsta daginn. Ég ætla, að tveir hv. þm. hafi haldið því fram, að ákvörðunarrétturinn um vaxtahæð falli undir landsbankanefndina. heim hv. þm. vil ég benda á, að í 41. gr. landsbankalaganna er verksvið hennar einskorðað, og nefndin hefir aðeins tillögurett um þessi efni. En slíkan tillögurétt hafa reyndar allir þm., og að því leyti hafa nefndarmennirnir enga sérstöðu í þessum efnum fram yfir aðra þm. (BA: Jú, í gegnum kosningar í bankaráðið). Það má að vísu til sanns vegar færa, en eins og nú standa efni til, þegar engar kosningar í bankaráð geta orðið fyrr en að ári liðnu, þá skiptir slíkt engu máli um afgreiðslu þessarar till. En engu að síður væri ekki úr vegi að samþ. þessa till., úr því að hún er komin fram. Það væri þá tilraun, sem að vísu er hæpin, en þarf ekki að vera vonlaus, ef árferði batnaði fljótlega og afurðasala tækist vel á sumri komanda. En ég verð að taka undir það með hv. 2. þm. G.-K., að það geta varla talizt nein stórkostleg bjargráð í kreppunni, þótt vextir yrðu lækkaðir um svo sem ¼% eða ½%. En eins og hag Landsbankans er nú komið og viðskiptavandræðin almenn, þá er lítil von um, að hann geti lækkað vextina um það, hvað þá meira. Ég álít þess vegna þessa till. sem sagt tilraun, sem er meinlaus en líklega gagnslaus, og mun ég greiða henni atkv. mitt þrátt fyrir það, en um árangur geri ég mér ekki miklar vonir.

Um brtt. hv. 2. þm. Rang. þarf ég ekki að tala, því að mér finnst henni stefnt í þá átt, að óþarft sé að taka hana til greina. Í brtt. þessari er t. d. fellt burtu atviksorðið „alvarlega“, og datt mér þá í hug, að till. hans væri ekki flutt í alvöru, heldur til gamans. (GunnS: Ég tek þingið alvarlega). Ég held, að það sé tæplega ástæða til þess að taka till. þessa til greina. Ef um vaxtalækkun er að ræða, verður að stefna óskum um það til þjóðbankans, og ef það ber árangur, þá munu aðrar lánsstofnanir landsins laga sig eftir því.