03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (486)

43. mál, lækkun vaxta

Jón Auðunn Jónsson:

Það munu margir mæla, að hér séu orðnar lengri umr. en þessi till. ætti skilið. Því að fjarri fer því, að menn hafi reynt að rekja orsakir þeirra vaxta, þeirra ódæmaháu vaxta, sem hér eru og eru svo langsamlega hærri en í öllum nálægum löndum með svipuðum atvinnurekstri. Menn hefðu átt að byrja á byrjuninni og rekja orsakirnar, síðan finna ráð. Þetta kemur kannske af því, að hv. þdm. eru þær of kunnar. Því að það er öllum vitanlegt, að fjármálaaðferð hæstv. stj. á sökina. (HJ: Var það farið að verka, áður en núv. stj. kom til valda?). Jú, jú, það var öll von, að litli fjmrh., hv. þm. V.-Húnv., skildi þetta ekki. Það er allt annað að greiða háa vexti, þegar þeir eru háir á heimsmarkaðinum. Enginn kvartaði yfir að greiða 8% árin 1908–1909, þegar bankahrunin urðu bæði hér í álfu og í Ameríku, og Englandsbanki hækkaði forvexti sína upp í 6% og einkabankar í 7%, og við komumst þá einu sinni í 9%. Menn verða að hafa samanburð á ástandinu nú og þá. Vextir í þeim löndum eru nú allt að helmingi lægri en hér. Víðast í álfunni eru vextir nú 4% eða 5½%, en 8% hér, og sé miðað við útlánsvexti seðlabankanna, eru þeir frá 2½–4½%, en hér 8%.

Það er öllum vitanlegt, að þau neyðarkjör, sem við urðum að sæta á síðasta hausti, eru af tveimur orsökum aðallega. Önnur er meðferð stj. á Íslandsbanka. Sjálfsagt hefir það verkað talsvert í bráð til óhagnaðar lánstrausti Íslendinga. En hitt vó miklu þyngra til að skapa okkur þessi ókjör, meðferð stj. á landsfé á undanförnum árum. Ég hefi séð skrá yfir landsreikninga og fjárhagsáætlanir nærfellt allra þjóða í Evrópu síðan 1923. Það er áreiðanlegt, að enginn af þeim mönnum, sem fara með stjórn fjármálanna hjá öðrum þjóðum, lítur svo a, að heimilt sé, jafnvel fyrir þjóð, sem er rík, að eyða öllu handbæru fé veltiáranna og brúka 25%–40% fram yfir áætlun fjárlaganna. Þarna liggur meinið, og við fáum að súpa seyðið af því um mörg ókomin ár, því miður. Þetta er það, sem allir hv. stjórnarliðar vita, og þess vegna er það einmitt, að þeir vilja dylja orsakirnar fyrir alþjóð.

Allir menn, sem nokkurs eru ráðandi, verða að gera sér þetta ljóst, allir þeir, sem komnir eru til ábyrgðar og geta hugsað um stjórnmál sem mál þjóðarinnar, en ekki sem flokksmál, verða að gera sér þetta ljóst. Hvað er það sem gert er til að kippa þessu í lag? Sjáum við ekki daglega, að það er verið að breiða yfir misfellurnar? Það er verið að draga úr ábyrgðinni, sem stj. hefir, það er verið að draga úr valdi þingsins og stj. er gefið meira og meira undir fótinn með einræði um að fara bæði í kringum fjárlögin og önnur lög. Það er meira en lítill skopleikur, að tala um að skora á ríkisstj. að gera allt, sem í hennar valdi stendur til að lækka vextina. Því að einnig hér er búið að dreifa ábyrgðinni. Með lögunum um Landsbankann 1928 var ábyrgðin tekin af þeim mönnum, sem höfðu eiginlega ráðin í bankanum, og ábyrgðinni skellt á 15 manna nefnd, landsbankanefndina, sem hvorki hefir neina aðstöðu til að ráða um málefni bankans né heldur þekkingu til þess. Það er alltaf verið að þurrka út ábyrgðina og færa hana út á svið, þar sem ekki er hægt að beita henni. Meðan svo er, held ég sannast að segja, að við ættum að láta þetta mál niður falla. Fyrst þegar þingmeirihlutinn vill ganga inn á aðra braut að gera ábyrgðina gildandi þar, sem hún á að vera, og hættir að breiða yfir misfellurnar, sem hvort heldur stjórn eða stjórnarflokkurinn veldur, má vænta nokkurs árangurs af því, að þingið skori á stj. að gera allt, sem í hennar valdi stendur, hvort heldur til að lækka vextina eða gera eitthvað annað.