03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (488)

43. mál, lækkun vaxta

Jón Auðunn Jónsson:

Það er erfitt að eiga orðastað við hinn litla þm. V.-Húnv. á þinglegan hátt. Hann virðist hafa tekið það hlutverk að sér að fara með slúðursögur hér í þinginu, og spinnur svo út af þeim heilmikinn fjármálalopa, til þess að halda uppi blekkingum í þessu máli.

Hv. þm. vill ekki viðurkenna það, að það hefði haft nein áhrif á vextina, þó að við hefðum notið sömu vaxtakjara sem aðrir þjóðir, t. d. 5%. Það skilja þó allir, bæði þm. og almenningur, að undanteknum hv. þm. V.-Húnv., að dýr lán hafa áhrif á vextina: Af þessum ástæðum er hann líka kallaður „litli fjmrh.“ Menn hafa fundið, að hv. þm. ristir ekki djúpt í þessum málum og ekki getað stillt sig um að gefa honum viðurnefnið.

Hv. þm. var að gefa það í skyn, að ég ætti, meðal annara, sök á því, hve vextir eru nú háir. Get ég ekki verið að svara þessu mörgu, enda hefi ég svarað svipuðum aðdróttunum áður hér í þinginu, en þó vildi ég benda hv. þm. V.-Húnv. á það, að útibú Landsbankans á Ísafirði tapaði minnu undir minni stjórn en bankinn tapaði á einu fyrirtæki á Ísafirði, sem hann „finanseraði“ beint.

Hv. þm. V.-Húnv. er alveg óhætt að trúa því, að hinir háu vextir, sem við eigum nú við að búa, stafa fyrst og fremst af hinni vondu fjármálastjórn og fjársukki núverandi stj. Skal ég gefa hv. þm. heimilisfang eins hins mesta fjármálamanns í Englandi, svo hv. þm. geti spurzt fyrir um skoðun hans á fjármálum okkar Íslendinga, eins og nú stendur, ef hann vill ekki trúa mér um þetta atriði. Að ætla sér að skella skuldinni á bankana, að þeir hafi tapað svo miklu á sjávarútveginum, að af þeim orsökum séu vextirnir svona óhæfilega háir, er hin mesta fásinna. Ríkið hefir haft tvítugfaldar tekjur af sjávarútveginum á móts við það, sem bankarnir hafa tapað, og er þá ótalið allt það fé, sem útvegurinn á annan hatt hefir veitt inn í landið. Nei, þeir menn, sem líta á þetta mál frá bæjardyrum smásálarinnar og flokkshagsmunanna, eru ekki líklegir til að greiða úr því. Það er vitanlegt, að meðan verðbreytingarnar voru að færast yfir, tóku bankarnir millj. kr. árlega af viðskiptamönnum sínum í hreinan ágóða, enda hygg ég, að það muni koma á daginn, þegar gengisreikningarnir verða gerðir upp, að þessi ágóði bankanna nemi mörgum millj.

Eyði ég svo ekki fleiri orðum við hv. þm. V.-Húnv. Hann hefir þegar sýnt, að frá honum er ekki að vænta neinnar skynsamlegrar úrlausnar á þessu máli.