03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (490)

43. mál, lækkun vaxta

0490Hannes Jónsson í [óyfirl.]:

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að þeir menn, sem litu á þetta mál frá flokkshagsmunasjónarmiði, væru ekki líklegir til að gefa bendingar, sem að gagni mættu koma. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Og af þessum ástæðum m. a. eru bollaleggingar þessa hv. þm. um orsakir fyrir ástandinu eins og það er hér nú einskis virði. Hv. þm. staðhæfir það enn, að núv. stj. eigi sök á hinum háu vöxtum. Veit ég ekki, hvað er frá flokkshagsmunasjónarmiði séð, ef ekki þetta. Og hvernig getur slíkt verið núv. stj. að kenna; þar sem t. d. öll töp Íslandsbanka höfðu myndazt löngu áður en núv. stj. tók við völdum og þeir örðugleikar bankans komu í ljós, sem leiddu til þess, að honum varð að loka? Það er auðvitað ekki þýðingarlítið atriði, þegar um vexti er að ræða, hve bankarnir starfa með dýru fé, eins og hv. þm. N.-Ísf. vildi gera mér upp að halda, en öruggasta leiðin til þess, að bankarnir geti starfað með lágum vöxtum, er að útlán þeirra séu svo vel tryggð, að þeir þurfi ekki á meiri vaxtamismun að halda en sem svarar rekstrarkostnaðinum. Þegar fyrirsjáanlegt er, að bankarnir tapa á útlánum sínum, verða þeir að taka hærri vexti til að tryggja sig. Vil ég í þessu sambandi minna á það, að ýmsar einstakar stofnanir starfa með lægri vöxtum en bankarnir. Sýnir þetta, að ef útlán bankanna hefðu verið eins vel tryggð eins og útlán sparisjóðanna, mundu þeir ekki þurfa að hafa svo háa vexti og nú eru.

Ég skal ekkert um það segja, hvort bankarnir geta lækkað vextina. Býst ég frekar við, að þeir geti það ekki, en þó mun ég greiða þessari till. atkv. mitt, í þeirri von, að hún leiði þó a. m. k. til þess, að þetta mál verði tekið til rækilegrar íhugunar af þeim aðiljum, sem hér eiga hlut að máli.

Hv. þm. N.-Ísf. var að reyna að gera mig sem minnstan. Slíkt er honum heimilt, en það má hann vita, að hann vex ekki sjálfur að heldur. Ekki er ég heldur svo trúgjarn, að ég trúi því, sem hann var að segja um sjálfs sín afrek á fjármálasviðinu. En hvort sem það er nú bankastjórum bankanna að kenna eða ekki, verður ekki komizt framhjá þeirri staðreynd, að bankarnir hafa tapað og verða að reyna að vinna upp töp sín, og það geta þeir ekki með öðru en vaxtamismuninum. (JAJ: Það eru til fleiri möguleikar). Já, það er t. d. hægt að láta ríkissjóð leggja bönkunum fé án þess að taka vexti af, eins og gert var þegar verið var að bjarga þrotabúi Íslandsbanka á þinginu í fyrra. Ég hefi nú samt ekki orðið var við það, að bankinn hafi lækkað vextina, þrátt fyrir þann mikla styrk, sem honum var veittur úr ríkissjóði. Vextir hans eru þvert á móti ½% hærri en vextir Landsbankans. Það getur verið, að ríkið fái einhverja vexti af þeim 4½ millj. kr., sem það lagði Útvegsbankanum í fyrra, en ég býst ekki við, að þeir verði miklir. Bankinn virðist ekki geta lækkað vexti sína, þrátt fyrir hjálp ríkissjóðs, og vekur slíkt ekki hjá manni trú á árangri af þessari þáltill. Að bankarnir fari að lækka vexti sína án þess að geta það, er til lítilla bóta, því að það leiðir aðeins til þess, að ríkissjóður verður að hlaupa undir bagga með þeim með fjárframlögu um.