19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (525)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki mæla því í gegn, að frv. þetta fari til n., en vil biðja þá hv. n., sem fær það til athugunar, að hafa í huga, að ég mun bráðlega flytja annað frv. um tekju- og eignarskatt hér í deildinni. Vona ég, að n. taki bæði frv. til athugunar samtímis.

Þetta frv. hæstv. ráðh. er svo til shlj. frv. meiri hl. skattamálanefndar, eins og það var afgr. frá Nd. í fyrra, og er þar aðeins um lítilvægar breyt. að ræða frá gildandi lögum. En megingalli gildandi laga um tekju- og eignarskatt, og þá um leið frv. þessa, eru tveir:

Í fyrsta lagi er persónufrádráttur sá, sem frv. heimilar, allt of lágur. Mun ég víkja nánar að því síðar.

Í öðru lagi er skatturinn á háum tekjum og stóreignum allt of lágur, og hlutafélögum, sem ráða yfir miklu hlutafé, alveg sérstaklega hlíft við tekjuskatti.

Úr hvorugum þessara megingalla bætir frv. Þótt það yrði samþ., yrðu eftir sem áður lágtekjurnar, nauðsynjarnar, aðalskattstofninn, en arður og stóreignir lítt notuð sem skattstofn ríkissjóðs.

Tvennt er það þó í frv., sem segja mætti að horfði til nokkurra bóta frá því, sem nú er: Fyrst að heimila að hækka skattinn um 25% með einföldu fjárlagaákvæði. Hitt er ákvæðið um ríkisskattanefndina, sem óefað verður til þess að skapa meira eftirlit með framtalinu og festu í framkvæmd laganna um allt land. Að þessu undanteknu er ekkert í frv., sem horfir til bóta frá gildandi lögum. Meginatriðinu, að nota betur hinn sjálfsagðasta skattstofn ríkisins, tekjur yfir vissu lagmarki og skuldlausar eignir, er algerlega gengið fram hjá í frv. Af því leiðir aftur hitt, að ekki er ætlazt til þess, að létt sé tollum af nauðsynjavörum frá því, sem nú er. Frv. stígur ekki eitt spor í áttina til þess að létta byrðar hinna efnaminni stétta, lágtekjumanna og fjölskyldufólks. í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á hér, hvernig þessi skattstofn, eignir og tekjur yfir vissu lágmarki, hefir hingað til verið notaður hér á landi. samanborið við lágu tekjurnar. Þær tekjur, sem ríkið fær af þessum skattstofni, tekju- og eignarskatti, nema ekki nema um tíunda hluta allra ríkisteknanna, en níu tíundu hlutar þeirra eru teknir á annan hatt. Þetta frv. breytir, eins og áður er sagt, litlu hér um, og sízt til bóta.

Nú er það sérstaklega athyglisvert, hvernig meiri hl. mþn. segist lita á réttmæti þessa gjaldstofns. Á bls. 19 í grg. segir svo: „Tekju- og eignarskatt verður að telja meðal hinna réttlátustu skatta“ og er það talið til síðar í grg., að hann hafi „þann mikla kost, að hann lætur hina efnaðri eða tekjuhærri ríkisborgara greiða stighækkandi skatt“. Að dómi meiri hl. n. er tekju- og eignarskattur þannig einn hinn réttlatasti skattur, en samt má, að dómi sömu manna og skv. frv. hæstv. fjmrh., ekki nota hann meir en gert hefir verið hingað til.

En hvernig hefir þá skattstofn þessi verið notaður til þessa? Ég drap á það aðan og skal nú fara nánar inn á það atriði. Spurningin hefir tvær hliðar, og veit önnur að ríkinu, en hin að gjaldendum. Að því er snertir þá hlið, er að ríkissjóði veit, er það áður tekið fram, að tekju- og eignarskatturinn, réttlatasti skatturinn að áliti meiri hl. n., hefir undanfarin ár numið rétt um 10% af tekjum ríkissjóðsins. Hin 90% af ríkistekjunum hafa að mestu verið tekin með öðrum minna réttlátum sköttum, og mest með afarranglátum tollum á lífsnauðsynjum almennings. Og einmitt þessir tollar eiga og hafa átt einna drýgstan þátt í að auka og halda við hinni miklu dýrtíð í landinu. Þessu vill meiri hl. n. ekki breyta og hæstv. stj. hefir gert till, hennar að sínum í þessu efni.

Að því er snertir þá hlið, er veit að einstökum gjaldendum, þá er þess að geta, að samkv. skattskýrslum undanfarinna ára, sérstaklega 1924 til 1927, hefir samanlagður tekju- og eignarskattur numið réttum 3,5% af skattskyldu tekjunum, þ. e. þeim hluta teknanna, sem umfram er lágmarkið, sem tekjuskattslögin ætla til brýnustu lífsþarfa, en það er allt of lágt, t. d. aðeins 2500 kr. fyrir 5 manna fjölskyldu. Hið sama verður uppi á teningnum, ef athugaðar eru skattskýrslur fyrir Reykjavík fyrir síðasta ár. Skattskyldar tekjur voru um 28 millj. kr. og skatturinn tæpl. 1200 þús. kr., eða liðlega 4%. Til samanburðar við þetta má geta þess, að tollar á nauðsynja- og neyzluvörum eru a. m. k. þrisvar sinnum hærri, eða ekki undir 10%–12% af tekjum allra lágtekjumanna, sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá, og yfirleitt af þeim tekjum, sem eru lægri en svo, að þær teljist skattskyldar til tekjuskatts. Nú ætla ég, að mönnum sé það ljóst, að lítil sanngirni eða skynsemi er í því að taka aðeins 31/2 % af þeim tekjum, sem eru umfram það, sem draga má fram lífið á, en taka aftur á móti yfir 10% af þeim tekjum, sem eru undir lagmarki til lífsframfæris. Þessu má heldur ekki breyta, að áliti hæstv. stj., sem sést á því, að hún hefir tekið þetta fóstur n. upp á sína arma.

Ágreiningurinn í skattamálanefndinni í fyrra var einkum um það, hvort halda skyldi uppteknum hætti um skattaálögur, þeim, að skattleggja með tollum á nauðsynjum lágtekjurnar, sem eru undir því marki, sem skattalögin telja lágmark til lífsframfæris, þrefalt hærra en stóreignir og hátekjur, sem eru yfir því lágmarki, eru skattlagðar til ríkissjóðs. Ég lagði til, að tekju- og eignarskatturinn í heild yrði hækkaður um ca. 75% og að lágtekjurnar yrðu jafnframt gerðar skattfrjálsar til tekjuskatts, með því að hækka persónufrádráttinn og hafa hann mismunandi eftir dýrtíð í hinum ýmsu hlutum landsins. Tollabyrðin lagði ég til, að yrði létt um nærri 2 millj. á nauðsynjavörum. Meiri hl. vildi hinsvegar hafa tekju- og eignarskattinn því sem næst óbreyttan; en hækka tolla á nauðsynjum allverulega frá því, sem nú er. Og nú hefir hæstv. stj. einnig tekið að sér þetta fóstur n., með því að flytja bæði þetta frv. og frv. um verðtoll og loks frv. til tolllaga. Nú kemur til kasta hv. deildar að fella dóm um þennan ágreining.

Ég drap á það áðan, að í gildandi logum er hamark skattfrjálsra tekna allt of lágt, aðeins 500 kr. fyrir hverja persónu, hvar sem er á landinu. Í frv. þessu er gert ráð fyrir 800 kr. frádrætti fyrir fullorðna, en 500 kr. fyrir börn, og jafnt um allt land, sem er alveg ósanngjarnt. Ég lagði til, að þessi frádráttur yrði fyrir fullorðna: 1200 kr. í Reykjavík, 1000 kr. í kaupstöðum úti um land og 800 kr. í sveitum, og 600, 500 og 400 kr. fyrir börn. Meiri hl. n. fellst á það í fyrra að hafa persónufrádráttinn mismunandi, eftir dýrtíð í hinum ýmsu hlutum landsins, en hv. þm. Borgf. fékk því breytt aftur í það horf, sem nú er í frv. Samkv. mínu frv. í fyrra ætti 5 manna fjölskylda hér í Reykjavík að hafa 4000 kr. tekjur skattfrjálsar til lífsframfæris, og má það alls ekki minna vera. Hinsvegar ber þess vel að gæta, að þetta atriði, persónufrádrátturinn, skiptir í rauninni mjög litlu máli fyrir ríkissjóð. Skatturinn, sem ríkissjóður fær af lágtekjumönnunum, er tiltölulega mjög lítill hluti af skattinum í heild. Þótt mikill hluti lágtekjumanna í landinu yrði leystur undan skatti, yrði tekjumissir ríkissjóðs af því næsta lítill. Skal þetta nú sannað með tölum:

Af ca. 25000 gjaldendum á árunum 1924–1927 voru 16850, eða um 70% af ollum gjaldendum, sem höfðu undir 1000 kr. í skattskyldar tekjur.

Árið 1927 voru gjaldendur á öllu landinu ca. 25000 og greiddu um 650000 kr. í skatt. Af þeim voru um 17 þús. gjaldendur, er greiddu alls liðlega 50 þús. kr. í skatt, eða um 3 kr. hver til jafnaðar. Greiddu þannig 70% af gjaldendum aðeins 7–8% af skattinum það ár. Af þessu sést það greinilega, að skattur þessara manna borgar alls ekki umstang og fyrirhöfn við innheimtuna, hvað þá meira.

Athugi maður skattskýrslurnar fyrir Reykjavík, verður hið sama uppi á teningnum í þessu efni. Síðastl. ár voru gjaldendur 9686 með skattskyldar eignir um 55 millj. kr. og skattskyldar tekjur um 28 millj. kr. Skatturinn nam samanlagður af eignum og tekjum í Reykjavík það ár ca. 1205 þús. kr. Af gjaldendum voru 5121, eða um 53%, sem höfðu til uppjafnaðar 900 til 1100 kr. tekjur skattskyldar, og nam skattur þeirra um 39 þús. kr., eða rösklega 3% af skattinum samanlögðum.

Ég sé nú ekki, hvaða vit er í því fyrir ríkissjóðinn að vera að nurla út úr þessum fimm þúsundum gjaldenda skattupphæð, sem nemur ekki meiru en 3% af öllum skattinum. Innheimtan ein borgar sig ekki, hvað þá heldur að hér sé um nokkrar tekjur að ræða fyrir ríkissjóðinn. Slíkar tekjur eiga að vera skattfrjálsar, þar sem hvorttveggja er, að ekkert vit er í því að leggja svo mikið á sig til þess að ná í þetta lítilræði, enda algerlega ranglátt að leggja, þótt litið sé, á tekjur, sem eru lægri en svo, að þær hrökkvi til lífsframfæris.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar við þessa umr. Hér er aðeins um það deilt, hvort fremur eigi að skattleggja nauðsynjar fólksins og þar með lágtekjurnar, starfsemina og barnauppeldið í landinu, eða hátekjurnar, arð og eignir. Ég hefi lagt til að nota þann skattstofninn, sem réttlatastur er, að allra dómi, jafnvel líka að dómi meiri hl. skattamálanefndarinnar, en draga að því skapi úr tollum á nauðsynjum, hinum óbeinu sköttum, sem skapa og viðhalda dýrtíðinni í landinu, auka á örbirgð og skort. Hæstv. stj. hefir nú lýst sinni afstöðu, og kemur nú til kasta hv. d. að taka afstöðu til þessa ágreinings.

Að lokum get ég ekki stillt mig um að minna hv. d. á það, hvernig hv. fjhn., sem hafði frv. meiri hl. skattamálanefndar til meðferðar í fyrra, skildi við þetta mál þá. Ég minni á það vegna þess, að ég hygg, að slík málsmeðferð þingnefndar sé alveg einsdæmi. Meiri hl. hennar lagði til, að frv. yrði samþ. með nokkrum breyt., sem flestar eru teknar upp í þetta frv. Í meiri hl. voru fjórir menn, 2 íhaldsmenn og 2 framsóknarmenn. Af þessum 4 rituðu 3 undir nál. og till. með fyrirvara. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp dagsetning og undirskriftir undir nál. á þskj. 303 í fyrra; má sjá það á bls. 28 í grg. þessa frv., og hljóðar það svo:

„Alþingi, 11. marz 1930.

H. Stefánsson,

form. og frsm.

Sig. Eggerz,

með fyrirvara, einnig um rökstuðninginn.

Hannes Jónsson,

fundaskr., með fyrirvara.

Ólafur Thors,

með fyrirvara“.

Ég held, að það sé einsdæmi, að nokkur nefnd hafi afgr. slíkt stórmál sem þetta á þennan hátt, eða a. m. k. man ég engin dæmi slíks. Ég hlýt að draga þá sjálfsögðu og eðlilegu ályktun af þessu framferði, að mennirnir hafi skrifað undir gegn þungum samvizkunnar mótmælum, og er það mjög að vonum.

Ég mun ekki mæla því í gegn, að frv. þetta fái að fara í nefnd, en ég vona, að lengra fari það ekki, en fái þau afdrif, sem því hæfa.