16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (529)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég stend aðeins upp til að þakka hv. meiri hl. n. fyrir afgreiðslu þessa máls. Það er ekki bein ástæða til að fara út í einstök atriði málsins. Frv. er eins og það var afgr. frá þessari d. á síðasta þingi. Þess vegna vænti ég þess, að það fái nú greiðan framgang í d.

Hv. meiri hl. n. flytur eina brtt. við frv. Um hana vil ég segja það, að ég fellst á hana. Það hefir oft verið mikill ágreiningur um þetta atriði og oft komið fyrirspurnir til fjmrn. um það, hvernig ætti að meta búpening til skatts. Sannleikurinn er sá, að um það hefir engin föst regla gilt. Þess vegna tel ég rétt að slá þessari reglu fastri, sem meiri hl. n. stingur upp á í þessari brtt.