16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (532)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Sigurðsson:

Það er út af brtt. hv. meiri hl. fjhn., að ég stend upp. Þar stendur: „Búpening skal meta svo sem hann væri framgenginn í fardögum næstu á eftir og eftir verðlagi síðustu verðlagsskýrslu hvers hrepps“. Í Skagafirði er það regla, að hreppstjóri og undirskattanefnd gera verðlagsáætlun skömmu fyrir áramótin og senda hana til yfirskattanefndar. Það mun vera slík skýrsla, sem átt er við í brtt. hv. fjhn., en þar er ekkert tekið fram um, að hún skuli staðfest af yfirskattanefnd. Ákveði skattanefndirnar í hverjum hreppi algerlega verðlagsmatið, er enginn grundvöllur fyrir samræmi í matinu. Svo getur farið, að í einum hreppi sé t. d. ein ær metin á 40 kr., í næsta hreppi á 45 kr. og í hreppnum á hina hliðina á t. d. 35 kr. Það fer eingöngu eftir áliti hverrar einstakrar skattanefndar, hvaða verðlag er talið hæfilegt á hverjum stað. Með því aftur að senda skýrslu hvers hrepps til yfirskattanefndar og láta hana vinna úr þeim, má treysta því, að hún finni sanngjarnt verðlag fyrir alla sýsluna. Þetta fyrirkomulag hefir gefizt vel. Vildi ég því, að brtt. yrði breytt og orðuð þannig:

„Búpening skal meta svo sem hann væri framgenginn í fardögum næstu á eftir og eftir verðlagi, er yfirskattanefnd ákveður, að fengnum verðlagsskýrslum úr öllum hreppum sýslunnar“.

Ég vildi biðja hæstv. forseta að leita afbrigða frá þingsköpum um það, að þessi skriflega brtt. megi komast að.