18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (535)

152. mál, sala og afnotagjald viðtækja

Flm. (Gunnar Sigurðsson) [óyfirl.]:

Ég býst við, að menn séu nú orðnir þreyttir á umr., og skal ég því vera stuttorður.

Þessi þáltill. er borin fram í samræmi við tvær aðrar till., sem fram hafa komið hér í hv. d.

Fyrri liður till. fer fram á það, sem telja verður rétt og sanngjarnt, að gefa mönnum kost á að greiða viðtæki með afborgunum.

Síðari liðurinn miðar að því, að menn geti sem bezt notið þeirra hagsmuna og menningar, sem útvarpið veitir. Er þar lögð sérstök áherzla á það, að útvarpið geti dreifzt út um sveitirnar sem fyrst. Vil ég í því sambandi benda á, hve ómetanleg veðurskeytin hljóta að vera bóndanum um sláttinn.

Þótt einkennilegt megi virðast, þá hefi ég ekki ennþá getað fengið ábyggilegar upplýsingar hjá útvarpsstjórninni um, hvernig notendafjöldinn skiptist eftir sveitum og kaupstöðum. Ég býst þó við, að niðurstaðan sé sú, að kaupstaðir hafi yfirleitt hærri notendatölu. Ég vil þó ekki, til að byrja með, fara fram á annað en jafnrétti sveita og bæja í þessu efni. En ég tel fulla ástæðu til þess, að breytingum yrði komið á, svo að sveitirnar gætu sem fyrst haft not af útvarpinu.

Ég tel, að það sé líka til hagsmuna fyrir ríkið, að afnotagjaldið lækki, eins og farið er fram á í þáltill., því að ríkið græðir á því óbeinlínis, að útvarpið breiðist sem fyrst um landið. Þó að útvarpið beri sig ekki í fyrstu fjárhagslega, þá eru hinir óbeinu hagsmunir ríkisins af því meiri en rekstrarhallanum svarar.

Útvarpstækin eru hér dýrari en í öðrum nálægum löndum. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er afnotagjaldið ekki nema 10 kr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till. að sinni, en mun ræða hana betur við síðari umr. Vil ég svo leggja til; að till. verði vísað til síðari umr. og allshn.