18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (539)

152. mál, sala og afnotagjald viðtækja

Benedikt Sveinsson:

Ég skal ekki tefja þá fáu hv. þm., sem hér eru eftir, með löngum ræðuhöldum, enda er ekki rétt að fara að vaka hér við umr. fram á nótt, þar sem menn verða að fara á nefndarfundi kl. 9 á morgnana. En ég verð að ætla, að það sé lítill ágóði fyrir starfsemi þingsins, að fara nú að halda kvöldfundi, áður en stór-nefndirnar hafa lokið störfum. Ég skal þó taka það fram, að ég beini þessum orðum alls ekki að hæstv. forseta, enda ætla ég ekki að fara að kenna honum hegðun.

En mál það, sem hér er til umr., er orð í tíma talað, og mætti mega vænta, að það verði vel athugað. Ég ætla þó ekki að tala um málið sjálft að þessu sinni, heldur vildi ég minnast á það, hverri n. væri æskilegast að fá málið í hendur. Veit ég það að vísu, að engin n. er betur skipuð en hv. allshn., svo sem vera ber. En nefndin er svo hlaðin störfum, að ekki er rétt að vísa til hennar öðrum málum en þeim, sem brýna nauðsyn ber til. Ég tel því réttast að vísa till. til hv. menntmn., enda kvartar sú n. um það, að hún hafi of lítil störf fyrir hendi.