10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og nál. á þskj. 63 ber með sér, hefir menntmn. orðið sammála um að mæla með frv. En samt hefir n. ekki seð sér fært að leggja til, að veittur verði til bókasafnanna hærri árlegur styrkur en 4 þús. kr. N. hefði að vísu viljað mæla með hærri styrk, en þegar litið er til annara bókasafnastyrkja, sest, að skapast mundi mikið ósamræmi, ef hærra væri farið en þetta. Til sýslubókasafna er ekki veitt nema 2 þús. alls á ári. En n. væntir þess, að sá styrkur verði hækkaður til muna, og því hefir hún lagt til, að bókasafnastyrkur prestakalla verði 4 þús. kr.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir flutt nokkrar brtt. á þskj. 64, og er aðaltill., að fyrst um sinn skuli verja allt að 10 þús. kr. úr ríkissjóði í þessu skyni, en til vara 7500 kr. N. hefir ekki rætt þessa brtt. sérstaklega, en það liggur í brtt. n., að hún getur ekki fallizt á till. hv. 1. þm. Reykv.

Aðrar brtt. n. lýsa sér sjálfar. Það eru mest orðabreyt. eða lítilsháttar skipulagsbreytingar.

Um 1. og. 2. brtt. á þskj. 64 er ekkert að segja, nema að þær eru heldur til bóta.

Það eru ekki svo mikil hlunnindi, sem fylgja prestaköllum hér á landi, að ekki megi á þau bæta, þegar litið er á hin lélegu launakjör prestastéttarinnar. Og fátt er presti nauðsynlegra en að bókakostur hans sé sem beztur. Margir prestar kaupa allmikið af bókum, sjálfsagt meira en þeir hafa efni á. Því er gott að styrkja þá til þess á þann hátt, að bækurnar varðveitist á prestssetrinu. En oft hafa bækur hvers prests dreifzt eftir dag hans, til lítils gagns þeim, sem þær hafa lent hjá. Frv. gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að stöðva guðfræðibækur og heimspeki á prestssetrinu.

þar sem n. hefir orðið sammála um frv., álít ég ekki þörf að ræða málið frekar, nema sérstakt tilefni gefist.