18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (540)

152. mál, sala og afnotagjald viðtækja

Magnús Jónsson:

Ég gleymdi áðan að minnast á síðari hluta þáltill., en hv. 2. þm. Skagf. hefir tekið af mér ómakið að nokkru leyti.

Það er misrétti, að þær sveitir og bæir, sem seinast fá tækin, skuli verða að greiða hæst afnotagjald, því útbreiðsla tækjanna hlýtur að fara mikið eftir því, hve langt hver sveit liggur frá Reykjavík, og er þannig verið að skapa ranglátan mun á sveitum landsins. Þeir, sem næst búa, Reykjavík og nágrenni hennar, sem geta notað ódýrust tæki, eiga samkv. till. að greiða lægst afnotagjald, en þeir, sem fjarst búa, og verða því að kaupa margfalt dýrari tæki, eiga að greiða hæst afnotagjald. Þessi regla er algerlega mótsett því, sem vera ætti. Eru leiðir þær, sem farnar eru með till., algerlega óhæfar, þrátt fyrir lofsverða viðleitni hv. flm.