18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (541)

152. mál, sala og afnotagjald viðtækja

Flm. (Gunnar Sigurðsson) [óyfirl.]:

Ég vil fyrst svara hv. þm. N.Þ. því, að ég geri það ekki að neinu kappsmáli, til hvaða n. till. skal vísað, en mér finnst fara betur á því, að allar þáltill., sem snerta útvarpið, fari í sömu n., og þar sem hinar till. hafa gengið til allshn., þá legg ég til, að þessu máli verði einnig vísað þangað.

En hvað ræður þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Skagf. snertir, þá get ég ekki verið hv. þm. samdóma. Sú leið, sem farin er í till., er bezta og öruggasta leiðin til þess að útbreiða útvarpið sem hagsmuna- og menningarmál. Ég vil aðeins benda á það, að bóndinn um sláttinn og sjómaðurinn um veiðitímann þurfa ekki að kvarta yfir því, að það borgi sig ekki fyrir þá að kaupa viðtæki, og sæmileg tæki má fá fyrir ca. 100 kr. (Ýmsir þdm.: Fyrir 300–400 kr., ef á að nota þau í fjárlægari sveitum). Ég hefi þessar upplýsingar frá stjórn útvarpsins; ætti hún bezt að vita um málið. — En næst Rvík er hægt að nota ódýrari tæki, svonefnd kristaltæki, sem ekki kosta nema 20–30 kr. Verður ekki um það deilt, að til að koma skriði á útbreiðslu viðtækjanna er það ráð bezt, sem bent er á í þáltill.

En nú er orðið svo áliðið kvöldsins, að ég skal ekki kappræða málið í þetta sinn.