26.02.1931
Efri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (557)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Jónsson:

Ég get tekið undir till. hv. þm. Snæf. um það, að vísa máli þessu til nefndar. Þetta mál er stærra en menn virðast gera sér grein fyrir í fljótu bili. Sérstaklega verður þetta ljóst, þá er menn gefa gætur að þeim kringumstæðum, sem nú eru fyrir hendi. Geysileg fjárkreppa er skollin yfir land vort, og verður hennar vart bæði í atvinnu- og viðskiptalífinu og einnig hjá ríkinu sjálfu, eftir öllu að dæma. Fjárlagafrv. næsta árs hefir nýlega verið lagt fram. Verður því ekki neitað, að það ber þann svip, að fremur sé vænzt lítilla tekna til ríkisins, með því að nálega ekkert fé er ætlað til verklegra framkvæmda í landinu næsta ár, og einungis lítilsháttar til viðhalds verklegra fyrirtækja, svo sem vega, brúa og síma. Heimskreppan er þegar búin að teygja hramminn út til okkar og lama framleiðslu og athafnalíf okkar. Þegar nú svo er ástatt, þá virðist mér mjög þurfi að gjalda varhuga við öllu því, er miðar til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóðinn. Þess vegna get ég ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir því, að sami hæstv. fjmrh., sem nýlega hefir lagt til að skera niður allar opinberar framkvæmdir í landinu næsta ár, vegna féleysis, skuli á sama tíma leggja fram þessa till., sem að mínu áliti hefir minnst 200 þús. kr. útgjöld í för með sér fyrir ríkið. Ég tel þetta svo stórt mál, að mjög væri að rasanda ráði, ef því væri ráðið til lykta án þess að hafa svo mikið við að vísa því til nefndar. Við verðum að gera okkur vel ljóst, hversu alvarlegir tímar standa yfir. Um það eru allir sammála, og ríkisstjórnin sömuleiðis, að kaupgjald þurfi að lækka í landinu frá því, sem nú er, ef atvinnuvegirnir eiga að standast eldraun kreppunnar. Hinsvegar miðar þessi till. fremur til hins gagnstæða. Hér er farið fram á að hækka kaupgjald fram úr því, sem lög standa til. Því ber nú að vísu ekki að neita, að embættis- og sýslunarmenn okkar eru ekki svo vel launaðir sem æskilegt væri, en á það ber að líta, að við erum fátæk þjóð og getum ekki fyrir þá sök búið svo að embættismönnum okkar, að ekki mætti betur vera. En þrátt fyrir allt verður það ekki sagt með fullum sanni, að embættalaun hér á landi séu óhæfilega lág, a. m. k. með hliðsjón af þeim tekjum, sem öll alþjóð manna hefir sér til lífsframfæris. Og það er þess vegna ósamræmi í því að ætla að halda embættislaunum miklu hærri en lög standa til, áfram, þrátt fyrir stórum minnkandi dýrtíð, og þrátt fyrir það, þótt allir atvinnurekendur í landinu verði nú að komast af með miklu minni tekjur en undanfarin ár.

Það hafa heyrzt raddir um það, að Alþingi sé bundið við þetta samkv. launalögunum. Að nokkuð athuguðu máli hygg ég, að þetta sé á engum rökum byggt. Ég hefi farið í gegnum launalögin og ekki getað séð neitt ákvæði, er að þessu lýtur. Ég álít, að launalögin frá 1919 séu miðuð við eitthvert heilbrigt ástand, annaðhvort t. d. fyrir stríð, eða þá eftir að allt er komið í lag eftir umrót stríðsáranna. Launalögin ætlast sjálfsagt til þess, að dýrtíðaruppbótin lækki um leið og dýrtíðin minnkar í landinu. Að vísu verður því ekki neitað, að starfsmenn hins opinbera hafa þörf fyrir þessa launabót, hafa þörf fyrir auknar tekjur, en slíkt hið sama er að segja um alla þjóðina. Hinsvegar má ekki ganga fram hjá þeirri staðreynd, að dýrtíðin hefir stórminnkað, þrátt fyrir allt. Útlendar nauðsynjavörur hafa stórlækkað í verði. Reyndar getur vel verið, að sú lækkun hafi ekki nema að litlu leyti komið fram í bænum, en orsakir þess liggja í óheppilegu verzlunarskipulagi að verulegu leyti. Það gæti vel komið til frekari athugunar, hvort ekki væri fært að létta undir með þessum stéttum manna á einhvern annan hátt en með auknum launum. T. d. dettur mér í hug sú leið, að gera einhverjar ráðstafanir til þess að hefta húsaleiguokrið í Reykjavík, sem á mestan þátt í því að skapa og halda við dýrtíðinni í bænum. Mér þætti eðlilegra, að leitað væri einhverra slíkra ráða, eða a. m. k. athugað, hvað hægt er að gera í þessum efnum. Það má ekki skilja þessi orð mín svo, að ég sé að telja eftir þennan launaauka, öðru nær, heldur vakir það fyrir mér fyrst og fremst, að þm. geri sér það ljóst, að ástandið krefst sparnaðar á öllum sviðum, og að það er ekki nóg, að alþýða spari, heldur verða embættis- og starfsmenn ríkisins að gera það einnig. Hér má ekki endurtaka sig það fyrirbrigði liðinna tíma, þegar aðallinn neitaði að taka þátt í erfiðleikum síns lands. Þetta vildi ég leggja hv. þdm. ríkt á hjarta.

Ég fellst þess vegna á till. hv. þm. Snæf. um að vísa þessu máli í n. og mun greiða atkv. með því.