10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Pétur Ottesen:

Ég vildi taka undir með hv. þm., sem talað hafa, því að þetta er að sjálfsögðu gott mál og rétt að styðja tilraunir til að auka þann bókakost, sem lærðir og leikir í landinu eiga aðgang að. Hinsvegar er ekki þýðingarminna að stuðla að aukningu bókasafna lestrarfélaga og sýslubókasafnanna.

Til sýslubókasafna hefir nú um nokkur ár verið veittur lítilsháttar styrkur, eða 2 þús. kr. á ári, sem vitanlega hrekkur mjög skammt, þar sem þessari litlu upphæð er skipt milli allra sýslubókasafna. T. d. hefir sýslubókasafnið í Borgarfjarðarsýslu fengið árlega 50 kr. af þessum styrk, þar til síðastl. ár, að styrkurinn féll niður í 35 kr. Sjá allir, að slíkur styrkur hrekkur skammt til bókakaupa.

Mér hefir dottið í hug, hvort ekki væri fullt eins heppileg leið, að þingið stuðli að því að efla þessi söfn með ríflegri styrk, þannig að þau, auk þess að vera söfn til afnota fyrir almenning, hefðu einnig að geyma bækur sérfræðilegs efnis fyrir embættismenn, og það fleiri en presta. á þann hátt gætu sérfræðiritin haft meiri þýðingu, þar sem fleiri menn hefðu aðgang að þeim. Ég vildi því beina þeim tilmælum til menntmn., að hún tæki til athugunar þessa bendingu mína um aukningu sýslubókasafnanna, þann veg sem ég nú hefi bent a. Tel ég, að á þann hatt verði náð almennari og betri árangri en með þessu frv.

Það má nú segja, að bendingar frá mér um þetta komi nokkuð seint fram, en það stafar af því, að ég var fjarverandi, er frv. var til 1. umr., en þá ætlaði ég að vekja máls á þessu.

Það verður eigi framhjá því gengið, að slíkt frv. sem þetta gefur fleiri stéttum tilefni til að krefjast slíkra bókasafna sér til handa. Sýslumönnum er vafalaust mikil þörf á að lesa beztu rit lögfræðilegs efnis, bæði innl. og útlend, sem út eru gefin. (MT: Og hreppstjórum líka). Ég býst nú ekki við, að farið verði að hlaða undir þá fremur en gert hefir verið. En sýslumenn stæðu því betur að vígi um leiðbeiningar þeim til handa, sem þeir væru sterkari á svellinu í lögfræðiþekkingunni.

Annars skal ég ekki fjölyrða meir um frv., en vænti þess fastlega, að hugmynd minni um aukning sýslubókasafnanna verði meiri gaumur gefinn.