26.02.1931
Efri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (564)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Jónsson:

Það lítur út fyrir, að hv. 1. og 2. landsk. þm. hafi hneykslast á því, að ég sagði í minni fyrstu ræðu um þetta mál, að nauðsynlegt væri, atvinnuveganna vegna, að kaupið lækkaði. Er fjarri því, að mér sé þetta neitt gleðiefni, eins og menn munu geta skilið. Það liggur í augum uppi, að ekki er hægt að reka landbúnað með sama kaupi og áður, þegar afurðir bænda hafa lækkað um einn þriðja eða helming. Þetta er blákaldur veruleiki, sem ekki þýðir að neita.

Hv. 1. landsk. virtist gera sér vonir um einhvern klofning í stjórnarflokknum út af þessu máli, þar sem ég vildi láta kaupgjald lækka, en stj. hefði orðið til að hækka það. Ég er nú vanur að hafa mína skoðun á hverju máli, án tillits til þess, hvort öðrum líkar betur eða verr, en í þessu máli sé ég ekki, að um verulegan árekstur sé að ræða. Hæstv. fjmrh. hefir gert fullnægjandi grein fyrir afskiptum stj. af kaupdeilunni 1929 og sýnt fram á, að hér var um þjóðarnauðsyn að ræða, svo að grípa varð til sérstakra ráða.

Mér skildist hv. 1. landsk. gefa í skyn, að húsaleiga væri að lækka. Ef það er rétt, er minni ástæða til dýrtíðaruppbótarinnar en áður.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. sagði um erlent verkafólk, vil ég taka það fram, að ég gat þess, að ég teldi illa farið, ef þörf yrði á að grípa til slíkra ráða og betra, að innlent verkafólk lækkaði kröfur sínar.