12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (568)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Því miður fór svo, að fjhn. gat ekki orðið sammála um afgr. þessarar þáltill. Hv. 2. þm. S.-M. kom með sérstakt nál. Við hinir 2 höfum gert að till. okkar, að þáltill. verði samþ. óbreytt eins og hún er fram borin. Við 1. umr., eða fyrri hl. þeirrar umr., var gerð grein fyrir þeim ástæðum, sem til þess eru, að till. er fram komin, og verður það sjálfsagt endurtekið í þeim umr., sem nú fara fram. Í raun og veru er þetta mjög einfalt mál eins og það liggur fyrir nú. Árið 1928 var dýrtíðaruppbótin 40%, en lækkaði lítilsháttar 1929. En þá var á þingi samþ. að greiða sömu dýrtíðaruppbót og verið hafði 1928, og það sama var gert 1930. Nú liggur fyrir í 3. sinn till. um að heimila ríkisstj. að greiða þessa sömu dýrtíðaruppbót, 40%, jafnvel þó að útreikningur sá, sem þetta byggist á, sýni ekki nema 30% samkv. útreikningi hagstofunnar. Lög, sem þetta byggist a, eru nokkuð gömul, frá 1919. Það er kunnugt, að staðið hefir til að endurskoða og jafna mismun á kjörum embættismanna. En þingið hefir aldrei haft tíma né þrek til að fara út í þessa endurskoðun, sem er talsvert verk, og því látið þar við sitja að framlengja þessi launalög eins og þau hafa verið, og geri ég ráð fyrir, að svo verði einnig gert á þessu þingi, hvað sem svo um þessa till. verður. Það er athugandi, þegar verið er að ræða um dýrtíðaruppbót embættismanna, að grundvöllurinn, sem útreikningarnir byggjast á, er rammskakkur og gefur alls ekki rétta hugmynd um það nú, hve dýrt er að lifa í landinu. Við höfum í meiri hl. fjhn. verið sammála um að styðja till., en ég vil geta þess fyrir hv. samnm. minn (JÞ), að hann óskar, að það sé tekið fram, að fylgi hans sé sprottið af því, að síðan 1928 hefir kaupgjaldið hækkað almennt. Það er náttúrlega rétt, að það hafi hækkað almennt, en það er ekki um að ræða neina hækkun á launum embættismanna. Ég veit, að sumir hv. þm. munu svara: Það er hækkun, úr því að dýrtíðin hefir minnkað. — En hún hefir ekki minnkað í raun og veru, því að grundvöllurinn, sem útreikningarnir byggjast á, sýna ekki virkileg útgjöld, sem fólk hefir í landinu. Ég ætla mér ekki að fara út í nál. minni hl., sem er alllangt. Ég býst við að gera það, þegar hann hefir talað um málið frá sínu sjónarmiði. Get ég því látið hér staðar numið, því að mér finnst málið einfalt og að þingið geti ekki annað gert, úr því að það ætlar ekki að setja ný lög um laun embættismanna, en að samþ. að halda dýrtíðaruppbótinni. Það, sem skiptir máli, er fjárupphæð sú, sem þarf að borga aukreitis fyrir það, að dýrtíðaruppbótin lækkaði ekki. Eftir útreikningi er sú upphæð um 200 þús. kr., líklega þó heldur hærri, eftir því sem mér hefir talizt til eftir útgjöldum fyrir árið 1928, þegar vísitalan var 36%; má ég segja, að hún hafi þá numið 120 þús. kr. Ég geri því ráð fyrir, að það verði rúmar 200 þús. kr., sem hér er um að ræða. Ef þingið afnæmi dýrtíðaruppbótina, þá hlyti það líka að bæta eitthvað talsvert við laun ýmissa starfsmanna ríkisins. Það væri ekki um neinn sparnað að ræða, ef nýr launa-„skali“ væri útbúinn. Ég býst við, að hv. þm. geti gert sér í hugarlund, að ef þingið á annað borð fer að endurskoða launalögin og fella niður dýrtíðaruppbótina, mundi það hækka laun starfsmanna og embættismanna ríkisins um þá fárupphæð, sem hér er um að ræða. Hér er því ekki um neinn sparnað að ræða, jafnvel þótt dýrtíðaruppbótin yrði lækkuð það sem af er þessu ári. En það munar töluverðu fyrir hina lægst launuðu embættismenn landsins. Ég geri ráð fyrir, að mismunurinn á því, að dýrtíðaruppbótin sé 30%, eða 40%, sé sú fjárupphæð, sem nægir mönnum til að borga ýms gjöld, skatta og fastar kvaðir, sem á þeim hvíla. Það munar fyrir lágt launaða menn, og fæ ég ekki skilið, að þingið vilji fella niður þennan hluta af launum þeirra. Ég veit ekki, hvernig útborgun dýrtíðaruppbótarinnar er hagað nú, en mér þykir sennilegt, að hún sé greidd með laununum. Þá hafa þeir fengið þetta greitt í 3 mán. af árinu 1931, svo að því aðeins er hægt að fella þetta niður, að gera stj. ábyrga fyrir að hafa greitt launin með þessari dýrtíðaruppbót. Ég veit ekki, hvað hv. 2. þm. S.-M. vill ganga langt í því að gera stj. ábyrga fyrir sínar gerðir. Ég býst ekki við, að hann vilji ganga svo fast að henni að draga hana fyrir landsdóm fyrir brot á lögum landsins. — Ég hefi svo ekki fleira fyrir hönd meiri hl. n. að segja.