10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Magnús Torfason:

Ég verð að segja það, að mér þótti frv. þetta allundarlegt, er ég sá það fyrst. Sérstaklega fyrir það, að hér var um að ræða stéttarbókasafn. Mér varð á að hugsa svo, að hér væri um að ræða einkennilega stefnu, þar sem byrjað væri á skökkum enda, með því að stofna bókasöfn einstakra stétta úti um land, áður en nokkur verulegur styrkur væri veittur hinum almennu bókasöfnum.

Vegna strjálbýlis, fjárskorts og fleiri erfiðleika eiga sveitabókasöfn og önnur almenn söfn erfitt uppdráttar, ef þau eiga að verða almenningi að gagni. Þó mun vera aldarfjórðungur síðan eða meir, að menn komust á þá skoðun, að slík söfn ætti að styrkja af opinberu fé. Í Ísafjarðarsýslum voru til sveitabókasöfn fyrir fjórðungi aldar. Voru þau styrkt af sýslufé í öll þau 17 ár, er ég var þar, og uxu smátt og smátt. Svo er víðar á landinu, og þeim hefir fjölgað ár frá ári og þau hafa fengið meira fé til umráða.

Í Árnessýslu hefir bókasafn einnig verið styrkt af fé sýslunnar um langan tíma. Að vísu verður því ekki neitað, að heldur hefir dofnað yfir bókasafninu hin síðari ár. Stafar það aðallega af fólksfækkuninni í sveitunum. Þar sem ekki eru eftir á heimilum nema karl og kerling með hóp barna, verður lítill tími til lestrar.

Hinsvegar má geta þess, að fyrir sjálfsagt þriðjungi aldar var í Rangárvallasýslu lestrarfélag embættismanna og menntamanna, og gekk ég í það félag. Í félaginu voru flest prestar.

Þegar ég fór að heiman í vetur, var í ráði meðal menntamanna í sýslunni að koma slíku fél. á stofn, víðtækara en aðrir.

Ég verð að líta svo á, að þegar þing vill verða við óskum manna og þörfum fyrir betri bókakost, þá sé það ekki rétta leiðin að stofna stéttabókasöfn, heldur beri að auka framlög til hinna almennu safna. Ég vil benda hv. dm. á það, að í 15. gr. 9. lið fjárlfrv. er ákveðið, að veita skuli 1 þús. kr. til sýslubókasafna og lestrarsala í kaupstöðum, gegn jafnháu tillagi annarstaðar frá. Aftur á móti er ekkert lagt til sveitabókasafna, sem ég hefði þó talið engu minni ástæðu til; ef til vill með því skilyrði, að jafnmikið fé kæmi á móti úr sveitarsjóðum.

Eitt er það, sem litur út fyrir að ekki hafi verið hugsað til hlítar viðvíkjandi þessu frv., og það er, hvort ekki sé heppilegt, að prestar skiptist á bókum. mér skilst, að eftir því fyrirkomulagi, sem frv. leggur til, þá eigi hinar sömu bækur að vera í öllum söfnunum. Þetta finnst mér, að hefði mátt laga, því auðvelt ætti að vera fyrir prestana að skiptast á um bækur.

Loks gægðist fram sú skoðun hjá hv. frsm., er ég ekki bjóst við hjá svo frjálslyndum manni sem hv. þm. V.-Ísf., er hann vildi fela prestunum ritskoðunarvald í hendur.

Ég álít, að þetta mál sé enn ekki nærri því gerhugsað og að það væri heppilegast að láta það bíða úrlausnar enn um sinn, meðan rækilega er athugað, hvort ekki finnist aðrar leiðir heppilegri.