14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (580)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vildi segja örfá orð út af því, sem fram kom við fyrri umr. þessa máls, þó að það standi ekki í sambandi við sjálfa till. Ég heyrði það ekki sjálfur, en ég hefi sannfrétt, að hv. 1. landsk. hafi látið þau orð falla við fyrri umr. — og býst ég við, að flokksblöð hans hafi það ekki rangt eftir —, að hann hafi kennt mér um og sagt, að ég hafi ráðið þeirri kauphækkun, sem orðið hefir nú að undanförnu. Það var út af þessu, sem ég vildi segja nokkur orð. Að vísu hafa slík orð komið fram áður, en ég geri mikinn mun á því, hvort slík ummæli koma frá blöðum stjórnarandstæðinga eða þau koma fram í þingræðu hjá formanni andstöðuflokks stj., sem ég veit ekki betur en hv. 1. landsk. sé.

Það verður ekki um það villzt, við hvað hv. þm. átti, þegar hann sagði, að kauphækkunin væri mér að kenna. Hann átti við það, þegar ég gerðist milligöngumaður til að reyna að koma sættum á í mjög harðsnúinni kaupdeilu milli togaraeigenda og sjómanna fyrir nokkrum árum.

Um þetta vil ég þá segja það fyrst: Hvers vegna gekk ég í þetta mál? Hver atvik lágu til þess? Ég þarf ekki að rifja það upp, hve alvarlegt þetta mál var fyrir okkur, heldur aðeins tilefnið til þess, að ég fór að skipta mér af því.

Og ástæðurnar voru þá þessar: Eftir að sáttasemjari var genginn frá að koma á sættum, var það fyrir tilmæli frá nánustu samverkamönnum hv. 1. landsk., að ég gekk í málið, eftir að hafa ráðgazt við þá og eftir að hafa ráðgazt við menn úr hinum herbúðunum, sem ég gat líka talað við í trúnaði. Og hvað var það þá sem ég gerði? Ekki ákvað ég kaupið; það gerðu þeir. Ég kom ekki heldur inn á eðli málsins, hvort kaupið væri rétt ákveðið eða hver sú endanlega niðurstaða varð. Ég var milligöngumaður, sem eftir ósk frá beggja hálfu skapaði þeim aðstöðu til að geta talazt við og komið fram með kröfur sínar, þann vettvang, sem þeir gátu hitzt á og ráðið þessum málum til lykta.

Það var þó ekki aðallega til að koma að þessu, sem ég nú hefi sagt, að ég stóð upp. Í okkar þjóðfélagi eru miklar pólitískar deilur. Hjá þeim er ekki hægt að komast. Og það er alltaf hætt við, að þær verði meiri í svona fámennu þjóðfélagi, þar sem hver þekkir annan. En þó að deilurnar séu harðvítugar, þá kemur það þó fyrir, að nauðsynlegt er, að allir taki höndum saman til að leysa einhver vandamál svo vel, sem unnt er. Þannig var það í þessu deilumáli. Mér bar skylda til að koma þar fram sem fulltrúi þjóðfélagsins, til að binda enda á deiluna. En hitt álít ég óheppilegt, að þegar fulltrúar þeirra stóru framleiðenda og fulltrúar verkamanna og fulltrúi þjóðfélagsins gera skyldu sína í því að vinna saman tortryggnislaust, þá sé verið að reyna að gera tortryggilega framkomu þessara manna, sem vinna að því, að hægt sé að sættast á málið á friðsamlegan hátt. Það er ekkert við því að segja, þó að blöðin geri það, en þegar formaður stjórnmálaflokks gerir það, er það ekki heppilegt.