14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (581)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Það er sjaldan, sem maður nýtur þeirrar ánægja að sjá hæstv. forsrh. hér í þessari deild. En það hefir verið svo fyrir mér, að þá sjaldan, að mér hefir hlotnazt sá heiður, þá hefi ég orðið hissa. Og ég verð að segja það, að ég varð hissa nú. Hæstv. forsrh. kemur hingað og hellir yfir mig úr skálum reiði sinnar fyrir eitthvað, sem hann hefir frétt, að ég hafi sagt, en ég hefi alls ekki minnzt á. Ég minntist ekki við fyrri hl. umr. um þetta mál á afskipti hans af kaupdeilu þeirri, sem stóð milli togaraeigenda og verkamanna árið 1929. Öll þessi roka hans er því ekkert nema vindhögg, sem ég skil ekkert í, hvers vegna koma hér fram.

Aftur á móti get ég vel ímyndað mér, af hverju þetta er sprottið. Einn af flokksmönnum hæstv. forsrh. lýsti því yfir skýrt og skorinort hér í þessari hv. d. við fyrri hl. umr. þessarar till., að hann áliti það nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið nú, að kaupgjald lækkaði. Þá minnti ég hann á, hvernig sú kauphækkun, sem orðið hefði síðan 1928, byrjaði. Í því sambandi skýrði ég frá því, sem að vísu allir vita, að kaupdeilan 1929 hefði byrjað á milli stj. Eimskipafélagsins og skipverja á skipum félagsins. Þá réð hæstv. forsrh. málinu til lykta með því að greiða úr ríkissjóði þá kauphækkun, sem Eimskipafélagið vildi ekki greiða, en skipverjar fóru fram á. Frá þessu skýrði ég. Ef hæstv. forsrh. finnur ástæðu til að ónotast út af þessu, þá er það ekki viðkomandi minni frásögn, heldur hlýtur það að stafa af vondri samvizku hans og óánægju yfir þessum athöfnum hans. Hina kaupdeiluna nefndi ég ekki á nafn; ég vissi ekki svo mikið um hana, að ég gæti farið að draga hana inn í umr. hér. Sé eitthvað haft eftir mér í blöðum um það, þá er það ekki rétt hermt.

Hæstv. ráðh. ætti að vera svo kunnugur allri blaðamennsku, að hann hlypi ekki með það inn í þingsalinn, þó að hann sæi eitthvað það í blaði, sem honum þætti sérstök þörf á að svara. Hann ætti að eiga hægt með að afla sér á annan hátt óyggjandi vissu um, hvað satt væri í málinu. Ég vísa því frá mér öllum svigurmælum um það, að ég hafi hér framið neina óhæfu.

Ég get einnig tekið það fram, að þegar þessi flokksbróðir hæstv. ráðh., hv. 3. landsk., gerði þessa kauphækkun að umtalsefni sínu, þá spurði hann mig, hvort ég væri því ekki sammála, að kaupgjald þyrfti að lækka. Ég sagði, að ég vissi ekkert um það, hvort það væri nauðsynlegt eða ekki.

Heldur ekki hefi ég lagt neinn dóm á það, hvort það var rétt eða rangt, sem hæstv. ráðh. gerði, þegar hann ruddi brautina fyrir kauphækkuninni með því að skerast í deiluna 1929. Ég skýrði þar aðeins frá staðreyndum. En á hitt benti ég hv. 3. landsk., að ef hans flokki hætti það sérstök þjóðarnauðsyn að fá kaupið lækkað, þá væri rétt fyrir þá að leita til hæstv. forsrh. og vita, hvort hann hefði ekki eitthvert eins handhægt ráð til að lækka kaupið nú eins og hann hafði til að hækka það 1929.