14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (584)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er einkennilegt, þegar hv. 1. landsk. er í öðru orðinu að áfellast kauphækkunina 1929, en í hinu að sýna fram á, að hann hafi ekkert minnsta vit á því, hvort kaupgjald eigi að hækka eða lækka. Þetta ber ekki vott um glöggva hugsun. Annaðhvort hlýtur kauphækkunin að hafa verið réttmæt eða röng, og um það ætti hv. þm. að hafa ákveðna skoðun, ef hann á annað borð hugsar nokkurn skapaðan hlut um málið.

Í fyrravor varð hér kauphækkun á þann hátt, að verkamannafélögin auglýstu hærri taxta, og atvinnurekendurnir, sem flestir eru flokksbræður hv. 1. landsk., samþykktu hann umræðulaust. Hv. 1. landsk. samþykkti sjálfur kauphækkunina umtalslaust í stjórn Eimskipafélagsins, velti bara hinum aukna kostnaði við afgreiðslu skipanna umsvifalaust yfir á neytendurna.

Hefði hv. 1. landsk. þótt kaupið orðið of hátt áður, hefði hann sennilega spyrnt fótum við í fyrravor. En hann gerði alls ekkert í þá átt. Ég held því, að honum sé ekki svo leitt sem hann lætur, þó að kaupið hækki. Hann ætti að geta verið rólegur yfir því, sem gerðist í Eimskipafélaginu árið 1929, úr því að hann hreyfði ekki andmælum í fyrravor, þegar um miklu meiri kauphækkun var að ræða. Hv. 1. landsk. var þá í stjórn Eimskipafélagsins, þó að honum muni síðar hafa fundizt, að hann ekki eiga þar neitt erindi. Og honum ætti ekki að vaxa í augum þær 10 þús., sem kauphækkunin 1929 munaði Eimskipafélagið, þar sem glögg skilríki eru fyrir því, að hann hefir sjálfur skaðað félagið um 400 þús. kr. með þeirri bjánalegu kosningabeitu, sem hann framkvæmdi með breyttri áætlun félagsins 1930. Jafnvel flokksmenn og nánustu samstarfsmenn hv. þm. litu á það sem pólitíska veiðibrellu, er hann lét breyta áætlun félagsins á þann hátt, er skaðaði það um 400 þús. kr. Þetta varð svo til þess, að hv. 1. landsk. dró sig til baka úr Eimskipafélagsstjórninni, og var það raunar heiðarlega gert, þegar hann sá, hvað vel hann hafði unnið að hag félagsins, eða hitt þó heldur.