14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (586)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það virðast vera tvö mál til umr. samtímis hér í hv. d.: kaupdeilur undanfarandi ára og þáltill. um dýrtíðaruppbót á laun embættismanna. Ég vildi fyrir hönd meiri hl. fjhn. mega mæla með því, að till., sem samkv. dagskránni er til umr., verði nú samþykkt.

Það var hv. 3. landsk., sem innleiddi hér þær deilur, sem risið hafa í sambandi við þetta mál. Kom hann hér við fyrri umr. fram með ýms „ómótiveruð“ slagorð í þá átt, að kaupgjald þyrfti að lækka. Hv. 3. landsk. ræður nú vitanlega litlu um það, hvort kaupgjald hækkar eða lækkar, en hann sýndi greinilega vilja sinn í því efni. Þetta leiddi til þess, að farið var að tala um fleira, m. a. Eimskipafélagsdeiluna 1929. Ég álít, að hæstv. stj. hafi gert alveg rétt í því máli, úr því að stj. Eimskipafélagsins var svo heimsk að ganga ekki að samningum. Það voru ekki nema 11 þús. kr., sem á milli bar, og það varð úr, að ríkisstj. hækkaði styrkinn til félagsins sem því svaraði, upp á væntanlegt samþykki þingsins. Seinna gekk stj. Eimskipafélagsins að samningnum ívilnunarlaust, og var það lofsvert, að hún hélt ekki lengur við sína fyrri heimsku.

Það er ekki oft, sem ég ber blak af hv. 1. landsk., en mér finnst óþarfar þær árásir, sem hann hefir orðið fyrir nú ú af því, að hann vill engan dóm leggja á það, hvort kaupgjald ætti að hækka eða lækka.

Það er einkum tónninn í ræðu hæstv. dómsmrh., sem mér finnst ástæða til að minnast a. Í honum fólst hörð ásökun í garð hv. 1. landsk. fyrir það, að hann barðist ekki gegn þeim sanngjörnu kaupkröfum, sem verkalýðurinn hér í Rvík kom fram á síðastl. vori. Til þess er engin ástæða. Það er hægt að sýna fram á og sanna, að kjör verkamanna hér í Rvík eru ekki svo góð, að hægt sé að ásaka nokkurn mann fyrir það, að hafa ekki barizt á móti kauphækkuninni í fyrra.