14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (589)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Jónsson:

Ég ætlaði að sitja hjá umr. í þetta skipti, en hv. 1. og 2. landsk. hafa minnzt mín svo rækilega í ræðum sínum, að ég þykist verða að kvitta eitthvað fyrir það.

Ég get ekki fundið, að ásakanir hv. 1. landsk. út af fyrirspurn minni um það, hvort hann álíti ekki, að almennt kaupgjald þurfi að lækka, séu réttmætar. Ég veit ekki, hvaða kröfur maður á að gera til flokksleiðtoga, ef ekki þá, að þeir reyni að gera sér ljóst, hvernig heppilegast sé að leysa helztu vandamálin, sem fyrir koma í þjóðfélaginu. Og ég veit ekki, hvað er vandamál, ef ekki það, þegar ekki virðist hægt að reka atvinnuvegi þjóðarinnar á heilbrigðan hátt. Mér finnst það skylda hvers stjórnmálamanns að athuga og mynda sér ákveðna skoðun um hverja hugsanlega leið til að ráða fram úr slíku vandamáli. Og ég sé ekki betur en að það sé full ástæða til að minnast á kaupgjald yfirleitt, þegar ákveða á laun eins hluta þjóðarinnar, eins og hér er um að ræða.

Hv. 2. landsk. rann blóðið til skyldunnar og fór að bera blak af hv. 1. landsk. Hann hélt fram, að ég hefði borið fram órökstudda kröfu um almenna kauplækkun.

Ég veit nú eiginlega ekki, hvað eru rök í þessu máli, ef ekki það, að atvinnuvegirnir bera sig ekki.

Ég þori að fullyrða, að atvinnuvegurinn, sem ég starfa við, borgar sig ekki sem stendur. Kaupgjaldið, sem hann verður að greiða, er of hátt til þess, þótt ekki sé það of hátt fyrir verkafólkið.

Annars huggaði hv. þm. sig við það, að sama væri, hvað ég segði, því að ég fengi ekki miklu um þetta ráðið. Þá finnst mér, að hann geti tekið sér létt, hvað ég segi. Það er satt, að ég ræð hér litlu um. En það er annað, sem er mér sterkara, og það er sá kaldi raunveruleiki, getuleysi atvinnuveganna til að greiða hið háa kaupgjald.