10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Í umr. hafa fáar aths. komið fram um frv. sjálft.

Síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Árn., kom með þá einu aths., að heppilegt væri, að prestar skiptust á bókum úr bókasöfnum sínum. Ég fellst á það, að svo megi vera, og mun bera fram brtt. um það við næstu umr.

Ég skal geta þess, að þar, sem um er að ræða fleiri en einn prest í sama prestakalli, er ætlazt til, að elzti presturinn að þjónustuárum geymi safnið. Það var misskilningur hjá hv. sama þm., að ég hafi mælt með ritskoðun. (MT: Þm. lagði blessun sína yfir hana). Það var hv. 1. þm. Reykv., sem gat um það, að prestur nokkur hefði brennt bók, er hann taldi skaðlega, en það er óhætt að fullyrða, að slík fyrirbrigði mundu verða fátíð, og í þetta skipti mun hafa verið um sérstakar ástæður að ræða.

Ég skal endurtaka það, að ég álít rétt að hlynna að hinum almennu bókasöfnum betur en gert hefir verið, og fer frv. það, er ég mun leggja fyrir hv. menntmn., í þá átt.