14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (592)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Að því leyti, sem vikið hefir verið að till., sem fyrir liggur, í þessum umr., skal ég svara því strax, og þá fyrst hæstv. dómsmrh. Mér fannst koma úr hörðustu átt, að einn úr stj. skuli ráðast á samverkamann sinn, en það var hæstv. dómsmrh. að gera, því að till. er flutt af hæstv. fjmrh. Þess. vegna ber mér í raun og veru ekki mest skylda til þess að svara, þótt ég geti gert það fyrir n. hönd.

Hæstv. ráðh. sagði, að nú væri verið að hækka kaup verkamanna ríkissjóðs. Þetta er ekki rétt hjá honum. Sá embættismaður, sem nú hefir 3000 kr. laun á ári með dýrtíðaruppbót, heldur þessum 3000 kr. Þess vegna er ekki um neina hækkun að ræða. Það, sem ég veit, að hann og hv. 3. landsk. meina, er, að dýrtíðin hafi minnkað; en þeir hafa ekki fært neinar sönnur á það heldur, því að grundvöllurinn, sem byggt er á, er 11 til 12 ára gamall. Till. fer því aðeins fram á að halda því, sem er, en hér er ekki um neina kauphækkun að ræða.

Hinsvegar voru þær hugleiðingar hv. 1. landsk. eintóm firra, að hans flokkur hefði ákveðna lausn í huga í þessum kaupgjaldsmálum. Vinnudómurinn er aðeins vitleysa. Það er búið að reyna hann víða og hann er orðinn forngripur. Hjá menningarþjóðunum eru kaupgjaldsmálin leyst með samkomulagi beggja aðilja. Stundum verða harðvítugar deilur, en þetta er samt sú lausn, sem þykir bezt gefast, að aðiljar sjálfir fallist á vinnukjörin. Þetta hefir líka verið hér á landi til þessa, og til að létta undir með samningaumleitanir, hefir verið tekin upp sama aðferð og í nágrannalöndunum, um sáttasemjara.

Þessi leið virðist vera sú bezta, en ekki hin, að settir séu á rökstóla einhverjir óviðkomandi menn, sem ekkert botna í þessum málum, og eru svo e. t. v. hlutdrægir þar að auki, og þeir látnir dæma um, að svona og svona skuli vinnukjörin vera.

Hæstv. dómsmrh. sagðist ekki hafa ásakað hv. 1. landsk., en ég sagði, að tónninn í ræðu hans hefði verið ásökun til hv. þm. fyrir að ganga inn á kauphækkun.

Ég nenni ekki að tína upp aftur þær viðræður, sem við hv. 3. landsk. höfum átt um kaupgjaldsmálin, en ég vil benda honum á, að meginþorrinn af verkafólki er launaður með föstu tímakaupi, þótt allmargir sjómenn séu ráðnir upp á hlut. Og ég vil líka benda á það, að þegar vel gengur, dettur atvinnurekendunum ekki í hug að koma til verkamanna og hækka kaupið. En þegar kreppir að, eru þeir ekki seinir á sér að krefjast kauplækkunar þegar í stað. Verkamenn geta þá með góðri samvizku svarað: Þú lézt mig ekki taka þátt í gróðanum, þegar vel gekk, og nú er engin ástæða fyrir okkur til að taka á okkur byrðarnar, þegar harðnar í ári? — Þetta á að vera svarið, sem þeir gefa gegn kauplækkunarkröfum atvinnurekendanna.