14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (597)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Til viðbótar við þau rök, sem flutt hafa verið fyrir þessari till., vil ég bæta því við, að þingið í fyrra hefir eiginlega samþ. þessa till. í fjárlögum ársins 1931 er gert ráð fyrir, að dýrtíðaruppbótin sé 40% og fjárlögin reiknuð út með því. Mér finnst því skylda hæstv. fjmrh. að bera þessa till. fram fyrir þingið, og að því leyti tek ég ekki undir með hv. þm. Snæf., er hann áfellist flokksmenn hans; en hitt finnst mér koma úr hörðustu átt, að samverkamaður hans úr stj., hæstv. dómsmrh., skuli leggjast á móti till., því að ég hefði búizt við, að ráðherrarnir bæru ekki annað fram en þeir gætu verið sammála um.

Hann sagði t. d., að kaupgjald embættismanna 1924 og 1928 hefði átt að vera háatt, af því að þá var hátt verð á afurðum. Hæstv. dómsmrh. er svo illa að sér í þessu, að hann athugar ekki, að launin eru alltaf ákveðin árið áður en þau eiga að greiðast út. Þess vegna eru t. d. launin fyrir 1932 ákveðin í því frv., sem hér liggur fyrir nú. Það væri erfitt fyrir okkur að segja um það nú, hvernig verð á afurðum verður þá. Ef slík óvissa væri með launagreiðslur, mundi það enda með því, að ríkið fengi engan almennilegan mann í sína þjónustu.

Hæstv. dómsmrh. blandaði hér inn í Útvegsbankanum, sem hann kallaði bankann minn. Hann er nú sennilega að mestu leyti eign ríkisins. En frekar mætti bankinn kallast banki stjórnarinnar, og þá einnig dómsmálaráðherrans, því að hún hefir gert tillögur um fyrirkomulag þessa banka. Ég ætla engu um það að spá, hvernig afkoma hans verður, afkoma hans er að miklu leyti undir því komin, hvernig afkoma þjóðarinnar í heild

sinni er. En ég held, að það sé ekki bezta ráðið til að bjarga bönkunum að lækka kaupið. Kaupgjaldið hefir m. a. sína stóru þýðingu fyrir bankana. Setjum svo, að kaupið lækkaði um 50%, eins og hæstv. dómsmrh. gerði ráð fyrir að gæti orðið með afurðirnar. Hvernig færi þá fyrir þeim, sem byggja allar greiðslur sínar á núverandi kaupgjaldi, svo sem er um húseigendur, um ýmsa kaupmenn og síðast en ekki síst ríkissjóðinn? Þetta er því ekki eins gott ráð hjá hæstv. dómsmrh. og hann vill vera láta.