14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (599)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Ég hefi bent hv. 3. landsk. á það, að ég tel aðferðina til að bæta afkomu atvinnuveganna m. a. vera þá að vinna að því, að við getum selt afurðir okkar nýjar, því að það er leiðin til að halda þeim í sæmilegu verði. Þetta hafa kaupfélögin gert að því er kjötið snertir, þau hafa flutt það út nýtt, og með því haldið uppi verði á saltkjöti. Samskonar breyt. álít ég að sé nauðsynleg hjá sjávarútveginum. Auk þess þarf að gera ýmsar aðrar ráðstafanir viðvíkjandi útveginum til að hann beri sig. Það verður ekki bezta ráðið fyrir útveginn að lækka kaupið, heldur verður að bæta þær aðferðir, sem nú eru við útgerðina, svo að þær séu ekki eins óhagkvæmar og verið hefir að undanförnu. Það verður að „organisera“ sölu afurðanna og selja fyrr en gert hefir verið. Á þessu hefir gerzt stórbreyting í haust og vetur. Mikið af þeim nýja afla, sem veiðzt hefir, hefir verið selt undir eins fyrir peninga út í hönd. Þetta er léttir á bönkunum, ef ekki þarf að liggja með fiskinn allt sumarið og fram á haust, eða jafnvel fram að nýári, og hafa þar stórfé bundið.

Ég gleymdi áðan að svara hæstv. dómsmrh. og því, sem hann hélt fram um niðurfærslu á kaupi í Danmörku og Englandi. Hann sagði, að ríkisstj. í þessum löndum hefðu unnið að því, að lækka kaupið. Þetta er ekki rétt. Í Danmörku hefir það alls ekki átt sér stað. En í Englandi hefir komið fram sú tilkynning, að kaup ráðherranna væri fært niður eftir frjálsum vilja þeirra, en það er allt annað en að færa niður það almenna kaupgjald, en það var það, sem við vorum að tala um.