10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Magnús Jónsson:

Ég er alveg sammala hv. þm. V.-Ísf. og fleirum um það, að nauðsynlegt sé að auka og bæta almenn bókasöfn í landinu, og það skal ekki standa á mínu fylgi með frv. í þá átt, sem skynsamlega er um búið.

Ég vil mótmæla því, sem komið hefir fram í umr., að með frv. um bókasöfn prestakalla sé byrjað á skokkum enda. Það er svo fyrir að þakka, að í landinu er til mikið af bókasöfnum fyrir almenning. Hér er landsbókasafn og amtsbókasöfn, bókasöfn lestrar- og sýslufélaga, og smátt og smátt myndast bókasöfn um flesta skóla. Söfn þessi hafa mikið af góðum bókum bæði útlendum og innlendum, sem hafa almennt gildi, enda er í þessum söfnum mest áherzla lögð á öflun slíkra bóka. Hér hefir verið byrjað á réttum enda, en nú vantar bókasöfn sérfræðilegs efnis. Hin almennu bókasöfn eru snauð af bókum guðfræðilegs efnis, meira að segja landsbókasafnið, sem mun þó það eina, sem hefir slíkar bækur, þó af skornum skammti sé.

Af þessum ástæðum verð ég að fallast á frv. um bókasöfn prestakalla. Ég held, að það sé ástæða til að ætla, að hlúð verði með sérstakri hlýju að slíkum söfnum. Ég er þess fullviss, að margur sæmdarklerkur mundi leggja einstaka alúð við slíkt safn og reisa sér með því fagran og óbrotgjarnan minnisvarða. Einnig veit ég það, að margur sæmdarklerkur mundi gefa slíku safni, er hann hefði til umsjónar, álitlegar bókagjafir.

Ég held, að það sé litil ástæða til að óttast það, að aðrar stéttir geri kröfu til bókasafna í sínum fræðigreinum, en ef það verður, þá er að taka afstöðu til þess, þegar par að kemur. Það er viðurkennt, að prestar eru lakar launaðir en bæði sýslumenn og læknar og eiga því erfiðara með að afla sér bóka af eigin rammleik, en þar við bætist, að þar sem þeirra starf er vakningarstarf, er einnig mest af þeim heimtað. Engri stétt er eins lífsnauðsynlegt að fylgjast með straumum og stefnum tímans og einmitt prestunum. Ég efast ekki um, að t. d. sýslumönnum sé gott að lesa í sínu fagi, en þeirra starf er þó aldrei fræðslustarf.

Engum embættismönnum er eins brýn þörf á að fylgjast með á sviði bókmennta eins og einmitt prestum og kennurum. (MT: En frv. er langt frá að vera gerhugsað). Ég held, að frv. sé þó bezt komið einmitt með því að samþykkja það og á þann hatt verði það bezt hugsað, láta svo reynsluna kveða á um, hvort þörf sé breytinga. Þá geta tillögur um bókaskipti og fleira komið til greina.

Þá er ég kominn að ritskoðuninni, sem hv. þm. V.-Ísf. vísaði réttilega til mín. Ég hefi aldrei verið ritskoðunarmaður, og er óhætt að lofa hv. 2. þm. Árn. að horfa fram á þann dag, að ég verði það. En ég álít, að það sé rétt að gefa prestum skýlausa heimild til þess að taka ekki á móti þeim bókum, sem þeir telja skaðlegar. Auðvitað mun sú heimild verða sjaldan notuð. En ef gjöfinni er beinlínis ætlað að vera særandi frá gefanda hálfu, þá er sjálfsagt, að prestarnir hafi heimild til þess að þiggja ekki slíkar gjafir.

Hv. þm. V.-Ísf. gat um prest, sem hefði brennt bók eina, sem komizt hafði inn á heimili hans. Ég verð að segja það, að ég get ekki annað en borið virðingu og lotningu fyrir því, að prestur skuli hafa svo heilaga vandlætingu til að bera á þessum frjálslyndisdögum.

Hvað því viðvíkur, að prestarnir þurfi að þekkja þann fjanda, sem þeir eiga að berjast við, þá geta þeir það auðvitað, þótt bækur mótstöðumanna trúar og kirkju séu ekki settar í bókasöfnin. Slíkar bækur eru líka vanalega dægurflugur, og því ekki viðeigandi né nein þörf á því að setja þær í bókasöfn prestakalla. Annars fer það vitanlega eftir einkaskoðun hvers prests, hve strangt er tekið á þessum efnum.

Ég er, eins og ég hefi áður sagt, mótfallinn því, að strangur prestur og vandlætingasamur þurfi að veita bókum móttöku og geyma á heimili sínu, sem gefnar eru til þess að stríða honum eða særa hann sjálfan. Að þessu leyti er ég ritskoðunarmaður.

Ég skal svo ekki lengja umr. meir, en mér virðist, að hv. þm. beri góðan hug til frv., og vona ég, að það verði samþ. Framtíðin mun sýna, hvernig mál þessi gefast, og verður þá alltaf hægt um vik að koma fram nauðsynlegum breyt., ef þurfa þykir.