03.03.1931
Efri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (617)

59. mál, ábyrgð ríkissjóðs fyrir viðskiptum við Rússland

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Ég skal viðurkenna ú af ummælum hv. þm. Snæf., að ég tel það nauðsyn, en ekki góða nauðsyn, að þurfa að ganga í svona ábyrgð. Yfirleitt tel ég ábyrgðir illa nauðsyn. En nauðsyn getur, þótt ill sé, verið svo þörf, að ekki verði hjá henni komizt.

En viðvíkjandi ummælum hv. þm., þar sem hann talaði um milljónir, sem lagðar yrðu í ábyrgð fyrir síldarútveginn, þá er ekki gert ráð fyrir, að upphæðin gangi öll til ábyrgðar fyrir hann, heldur og fiskinn. Enda liggur það opið fyrir, að ef ætti að selja 200 þús. tunnur til Rússlands á 20 kr. tunnuna og ábyrgðin er á 75%, þá yrði upphæðin um 3 millj., en ekki 5.

Hv. 1. landsk. talaði um, að her væri á ferð ábyrgð í nýju formi, þar sem gert væri ráð fyrir, að ísl. ríkið ábyrgðist víxla, sem rússneska stj. ætti að greiða. í raun og veru er þetta nýtt á pappírnum, en það er samt sem áður gert fyrir þá, sem vöruna selja, því að við megum vera vissir um, að rússneska stj. er það ekki eins mikið keppikefli og það hlýtur að vera okkur, að fá þessi viðskipti. Það erum við, sem sækjumst eftir þessum viðskiptum. Þess vegna er ábyrgðin fyrir okkur, þótt hún sé í þessu formi.

Ég get verið fljótur að bregða upp dæmi út af ummælum hv. 1. landsk. um gróðann af sölunni til Rússlands. Ég tel gróða að fá í vinnulaunum af hverri tunnu 4–5 kr., og eins tel ég það gróða, ef fyrir hverja síldartunnu fæst hærra verð á rússneskum markaði en með því að leggja síldina í bræðslu, og hygg ég ekki rangt, að sá munur yrði 3,50 kr. á tunnuna. Til þess að þetta dæmi væri í alla staði rétt, yrði það því að vera þannig: Ríkissjóður fengi 1,50 kr., verkafólkið 4,00 kr. og síldareigendur 3,00 kr. Þá er komin þessi upphæð, sem hv. 1. landsk. bjóst við, að ég mundi þurfa að gera grein fyrir, ef málið færi til nefndar. Af þeirri ástæðu þarf það því ekki að fara í n., því ég er þegar búinn að gera grein fyrir því, en ég vona samt, að hv. dm. sýni því þá velvild að leyfa því að ganga til nefndar, svo að nánari athugun fari þar fram.