10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Magnús Torfason:

Ég hefi nú ekki ástæðu til að tala mikið um þetta mál eftir hina prestlegu ræðu hv. 1. þm. Rang., og það því fremur, sem hv. frsm. mótmælti ekki því, sem ég sagði um þetta mál.

Hv. frsm. gekk strax inn á skoðun mína um skipti á bókum milli prestakalla og bar þegar fram skriflega brtt. um slík bókaskipti. — Ég hefi sagt, að prestar hafi áður haft lestrarfélög og væri því réttara að bera fram frv. um bókasöfn prófastsdæma. Væri þá skemmra af stað farið, en hægur vandi að bæta um síðar, ef það reyndist ekki nægilegt.

Ekki get ég kannast við það, að prestar þurfi að afla sér meiri fræðslu og fylgjast betur með í sinni grein en aðrir embættismenn. Sumir embættismenn þurfa alltaf að kaupa nýjar og nýjar bækur, vegna þess, að þeirra greinum fleygir fram ár frá ári. En guðfræðin er í eðli sínu afaríhaldssöm, og ganga því guðfræðirit ekki eins fljótt úr sér og mörg rit önnur.

Og um þetta er það ennfremur að segja, að prestarnir hafa eina bók, sem ekki er dýr, og það er biblían. Ef þeir lesa hana vandlega, svo að þeir helzt kunni hana utan að, þá er hún hin bezta uppspretta fræða og lærdóms, sem þeir geta fengið. Því oftar, sem biblían er lesin, því merkilegri finnst manni hún og því meir finnst þar til að leggja út af. — Annars er ekki hægt að gera mikið úr þessum ræðum prestanna. Að vísu eru þar einstaka skörungar, sem mjög vanda til ræðu sinnar og halda snjallar ræður, en margir líka fara í súrt. Það er sönn saga, að einu sinni let prestur nokkur eftir sig 9 árganga af ræðum. Var það virt til fádæma, og sóttust margir embættisbræður hans mjög eftir því að fá ræðurnar. Fór svo að lokum, að dánarbúið fékk allmikið fyrir þær.

Ég verð að halda því fram samkv. framansögðu, að ekki sé enn kominn tími til að samþ. frv. sem þetta. Það, hvernig bókunum skuli skipt, er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem yrði tekið fram í reglugerð.

Hv. 1. þm. Reykv. endaði ræðu sína á því að lýsa ánægju sinni og velþóknun á því, að prestur einn skyldi brenna bók, sem komið hafði á heimili hans. En þetta er alls ekki nýtt hjá klerkastéttinni. Allar beztu bækur heimsins voru, a. m. k. fram eftir öldum, brenndar af klerkum. Það er auðvitað tilfinningamál, hve hrifnir menn eru af slíku, og ekki get ég meinað hv. 1. þm. Reykv. að vera það. En það er dálítið annað, er það kemur fram hjá hv. þm., að hann telur sérstaklega varið í það, að prestar séu „týrannar“. Ég verð að líta svo á, að þó að slíkir eiginleikar geti komið sér vel hjá sumum, svona í viðlögum, þá eigi þeir ekki að vera sérstaklega áberandi hjá prestum. Ég held þvert á móti, að prestarnir skilji það, að þeirra starf á að vera að bæta og hugga.