09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (631)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Pétur Magnússon:

Það er vel farið, að þetta mál er fram komið, því ekki er vafi á því, að lokun Íslandsbanka og þeir atburðir, sem gerðust í sambandi við hana, höfðu svo margvíslegar og víðtækar afleiðingar, að rétt er, að þingið reyni að kynna sér þær orsakir, sem lokuninni öllu.

Lokun bankans leiddi af sér tvennskonar tjón, beint og óbeint. Hún leiddi beint fjárhagslegt tjón yfir landið. Vil ég í því sambandi minna á lántökuna frá síðasta hausti, því að það ætti öllum að vera ljóst, að við urðum að sæta svo vondum lánskjörum þá vegna framkomu landsstj. í Íslandsbankamálinu í fyrravetur. Við urðum að sæta miklum mun verri kjörum en nágrannaþjóðir okkar fengu á sama tíma, en þess eru engar líkur, að við hefðum ekki notið sömu kjara og aðrar Norðurlandaþjóðir, ef meðferð stj. á Íslandsbankamálinu hefði ekki verið slík sem hún var. En auk þessa beina tjóns ríkissjóðsins hafa margir kaupsýslumenn beðið mikið beint tjón vegna erfiðari viðskiptakjara. Þekki ég ýms dæmi þess, að erlend firmu drógu sig til baka frá viðskiptum við íslenzka menn, eftir að bankanum hafði verið lokað. Til dæmis fékk eitt íslenzkt og traust firma, sem hafði loforð fyrir fastri kredit hjá firma í Englandi, afsvar frá þessu firma eftir lokunina, með þeim forsendum, að hér sæti að völdum bolsivikkastj., sem alltaf mætti búast við, að gengi frá öllum skuldbindingum landsins. Við vitum, að þetta er ekki rétt að því leyti, að núv. stj. er ekki bolsivikkastj., en hinsvegar hagaði stj. sér ekki ólíkt því, sem svo gæti verið, því að hún lagði áherzluna á það, að við yrðum að koma þeim skuldum af okkur, sem við gætum, til þess að standa betur að vígi á eftir. Að þessu leyti fetaði hæstv. núv. stj. dyggilega í fótspor Rússa. Og það er ekki vafi á því, að sá álitshnekkir, sem þessi tilraun stj. til að velta af sér réttmætum skuldbindingum, skapaði okkur, verður afdrifaríkari en það beina tjón, sem við höfum liðið af þessum sökum. Íslandsbanki var út á við almennt skoðaður ríkisstofnun, enda var hann í svo nánu sambandi við ríkið, að ekki var nema eðlilegt, að útlendingar litu svo á. Bankinn hafði seðlaútgáfuna í sínum höndum, 2 af 3 bankastjórum hans voru stjórnskipaðir, meiri hl. bankaráðs hans var kosinn af þinginu, og sjálfur forsrh. landsins var form. þess, auk þess sem bankinn hafði nafn landsins í firmaheiti sínu. Líka má benda á það, að nýlega er fallinn dómur hér f Reykjavík, þar sem gengið er út frá því, að Íslandsbanki hafi verið ríkisstofnun. Það var því ekki lítill álitshnekkir fyrir þjóðina þegar landstj. reyndi að varpa frá sér skuldbindingum stofnunar, sem svo var litið á, jafnt utan lands sem innan. — Venjulega er litið svo á, að sú stj., sem með völdin fer á hverjum tíma, sé spegill af þjóðinni á sama tíma. Þetta er og oft rétt, en hér reyndist það spéspegill. Þjóðin og þingið hafði til að bera meiri siðferðisþroska en sjálf landstj. og kaus ekki að velta af sér skuldbindingunum, heldur að standa við þær, eins og ærlegum mönnum sæmdi. En engu að síður hefir þjóðin þó orðið að gjalda framkomu stj. í þessu máli.

Hv. flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, hefir nú gert grein fyrir henni. Get ég ekki neitað því, að ég varð fyrir vonbrigðum við ræðu hv. flm. Ég hélt ekki, að hann hefði flutt þessa till. sína til þess að geta smjattað á gömlum sögum úr stjórnarblöðunum. Mér datt ekki í hug, að hann hefði tilhneigingu til þess að stíga hælnum á þá menn, sem reynt hafa að halda uppi atvinnulífinu í landinu, að vísu fyrst og fremst til að bjarga sjálfum sér, en beðið ósigur í þeirri viðleitni. Mér finnst óhætt að láta flokksblöðum stj. þetta eftir, en vera ekki að draga slíkan söguburð inn í þingið, enda verða rætur meinsemdarinnar ekki raktar með því að vera að telja upp töp einstakra manna við þessa stofnun. Þær liggja dýpra en svo. — Ég býst við því, að svo hafi átt að skilja hv. flm., að bankastjórar Íslandsbanka hafi orðið sekir um vítaverðan verknað í stjórnarframkvæmdum sínum, þó að hv. flm. segði þetta að vísu ekki beint út. Á að sjálfsögðu að rannsaka það til hlítar, hvort eða hve mikinn þátt bankastjórarnir hafi átt í töpum bankans, því að þeir eiga að standa ábyrgir gerða sinna, en ég veit ekki, hvort það er heppilegasta lausnin til rannsóknar á því máli að fela stj. að framkvæma hana, eins og till. hv. flm, gerir ráð fyrir. Þó að tínd séu til töp einstakra viðskiptamanna bankans, held ég, að það gefi litlar upplýsingar um sök eða sakleysi bankastj. Bankar geta vissulega tapað, og tapað stórfé, án þess að réttmætt sé að saka bankastj. um þau töp. Verðsveiflur og ýmsar truflanir í atvinnulífinu geta gert það að verkum, að lán, sem virðast fulltryggð, þegar þau eru veitt, eru töpuð eftir nokkurn tíma.

En það er fleira í sambandi við lokun Ísl.banka en afstaða bankastj., sem rannsaka þarf, og sumt á þá leið, að óhugsandi er að fela stj. rannsókn þess máls. Sum þessara atvika eru meira að segja þann veg vaxin, að heiður landsins liggur við, að þau komi í ljós, og er hér fyrst og fremst um að ræða afstöðu núv. stj. til lokunarinnar. — Ég býst við því, að allir þeir, sem hér eru inni, hafi heyrt þann kvitt, að allt frá því að Magnús Kristjánsson dó og þar til loks að bankanum var lokað, hafi verið unnið að því systematiskt af stj. að grafa undan bankanum. Skal ég engan dóm á það leggja, hvort þessi söguburður er réttur, en ég veit, að þeir eru margir, sem trúa honum, ekki síður flokksmenn stj. en andstæðingar hennar. Það, sem gaf þessum kvitt byr undir báða vængi, var afstaða stj. til þess hluta enska lánsins frá 1921, sem ríkið lánaði bankanum, og þykir mér því ástæða til að rifja nokkuð upp framkomu stj. í því máli. Með bréfi, dags. 30. jan. 1929, tilkynnti hæstv. forsrh. stj. Íslandsbanka, að landstj. hefði ákveðið að láta meta að nýju þær tryggingar, sem bankinn hafði sett fyrir láninu. Hafði landstj. skipað Jakob Möller bankaeftirlitsmann í matsnefndina, en bankaráð Landsbankans tilnefnt í hana

Jón Árnason framkvstj. og hv. 2. landsk. þm. (JBald). Matsnefndin komst að þeirri niðurstöðu 11. marz 1929, að þær tryggingar, sem bankinn hafði sett fyrir láninu, væru nægilegar. Samt sem áður krafðist hæstv. fjmrh. þess með bréfi, dags. 30. marz 1929, að tryggingarnar væru hækkaðar svo mjög, að veðið yrði a. m. k. 20% hærra en skuld bankans af enska láninu næmi á hverjum tíma. Mátti hæstv. fjmrh. þó vita, að bankinn gat ekki fullnægt þessum skilyrðum, en engu að síður hélt ráðh. stöðugt áfram að gera þessa kröfu á hendur bankanum. Var ekki nema eðlilegt, að út af þessu sprytti upp sá kvittur, að stj. hefði gert þetta til þess, að bankinn yrði að hætta starfsemi sinni.

Hér er um verulegt rannsóknarefni að ræða. Ef stj. er saklaus af þessum glæp, sem á hana er borinn, vil ég segja það, að heiður þjóðarinnar liggur við, að þetta sé kveðið niður. Ef stj. hinsvegar er sek að þessu, er nauðsynlegt, að það upplýsist, svo að hún fái makleg málagjöld. En ég geri ráð fyrir, að hv. flm. geti verið mér sammála um það, að lítið vit sé í því að fela stj. sjálfri þessa hlið rannsóknarinnar.

En það er fleira en þessi framkoma stj., sem upplýsa þarf. Viku áður en nokkur órói varð her í Rvík út af bankanum, gengu sögur um það í Kaupmannahöfn, að bankinn væri búinn að loka. Hvaðan eru þessar sögur komnar? Á því er engin skýring fengin ennþá. Ég segi ekki, að n. gæti upplýst þetta, en það er ekki óhugsanlegt. Fyrirspurnir bárust hingað um hag bankans frá erlendum mönnum um þetta leyti. Og má vera, að þeir gætu gefið upplýsingar um það, hvernig þessi kvittur hefði borizt þeim til eyrna. Hann gæti verið kominn frá Íslandi. Því þarf ekki að lýsa, hver áhrif þetta hefir haft á hag bankans, sem óneitanlega var í þröng áður, þótt hann hefði getað haldið áfram, ef rás viðburðanna hefði verið önnur.

Frá Englandi komu ennfremur fyrirspurnir til eins af bankastjórunum um það, hvort bankinn væri búinn að loka. Þetta var áður en bankastjórunum var ljóst, að slíkt væri í aðsigi. Þetta þarf að rannsaka, hvort sem nokkuð upplýsist um það eða ekki.

Austur á Seyðisfirði vissu menn, að loka átti bankanum, áður en menn höfðu hugboð um það hér. Menn tóku þar út innstæður sínar af hræðslu við lokunina. Hvernig stendur á þessu? Hefir einhver nákominn bankanum rofið þagnarskyldu sína? Um það skal ég ekkert segja. En þetta er líka rannsóknarefni.

En þetta þýðir ekki að skipa stj. að rannsaka, og þau plögg, sem hún legði fram, mundu ekki bera neitt með sér um þetta. Ég flyt því brtt. á þskj. 297 á þá leið, að í stað þess, að stj. leggi skjöl og skilríki viðvíkjandi lokun bankans fyrir þingið, verði kosin 4 manna nefnd samkv. 35. gr. stjskr. til að rannsaka málið. Skil ég ekki í öðru en að hv. flm. geti fallizt á þessa breyt., ef honum er nokkur alvara með till. sinni. Hann minntist ekki á brtt. í ræðu sinni áðan, en ég vona, að hann láti í ljós álit sitt á henni áður en umr. lýkur. Ég treysti því, að allir þeir hv. þdm., sem vilja fá allt í þessu máli fram í dagsljósið, greiði atkv. með brtt.