09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (635)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Jón Þorláksson:

Ég ætla lítið að blanda mér í þessar umr. Það var aðeins eitt atriði hjá hv. flm., sem ég vildi leiðrétta. Hann sagði, að það hefði verið skjalfest, að 1929 hefði bankinn átt óeytt allt hlutafé sitt og talsvert fé að auki. Ég vildi aðeins taka það fram, að reikningar sýna, að á þeim tíma var bankinn búinn að afskrifa nokkuð af hlutafé sínu sem tapað.

Af öðru, sem hér kom fram, eru aðeins ályktunarorðin í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vildi tala um. Hann kom með fullyrðingar um það, að brtt. hv. 4. landsk. bæri einungis vott um það, að hann vildi aðeins með henni leiða hugi mann og athygli frá hinni sönnu orsök þess, að bankinn varð að loka. Þetta nær vitanlega engri átt. Þar er farið fram á, að rannsóknarnefndin sé skipuð í þessari hv. d. Þar fá því stjórnarflokkarnir meiri hl. Og verkefni n. er svo rúmt eftir till., að það kemur ekki til mála að halda, að hún mundi skilja nokkuð eftir, sem gefið gæti upplýsingar um lokun bankans. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að slík n. mundi vilja stinga undir stól nokkru, sem máli skiptir, allra sízt því, sem stj. vill leggja fyrir þingið.

Legg ég svo til, að till. hv. þm. Ak. verði felld, því hún er hin mesta fjarstæða. En ég vil taka undir með hv. 4. landsk., að þess er ekki að vænta, að sú stj., sem sat við völd, þegar bankanum var lokað, vilji gefa þinginu allar upplýsingar um þær orsakir, er mest stuðluðu að lokun bankans eða á nokkurn hátt láta öll kurl koma til grafar. Ef hún þarf ekki að dylja neitt, þá ætti hún heldur ekki að setja sig á móti því, að skipuð yrði n., sem ætti að rannsaka allar hliðar þessa aðdraganda og einstök atriði hans. Það er verkefni, sem n. á að draga fram og leggja fyrir þingið og þá fyrst, þegar þær upplýsingar eru komnar og þær eru óvefengjanlegar, þá er tækifæri til að ræða um einstök atriði.

Ég vil að lokum minnast á eitt af því, sem hér er um deilt, hvort þessi atburður, lokun Íslandsbanka, hafi haft áhrif á lánstraust landsins og þannig haft áhrif á lánskjör fyrir ríkissjóð á láni, sem tekið var í nóv. síðastl. ár. Það getur enginn verið í vafa um þetta, sem hafði milli handa öll þau símskeyti, sem dundu hingað frá erlendum fjármálamönnum og trúnaðarmönnum erlendis, á meðan lokunin stóð yfir, að þeir álitu, að lánstraust Íslands væri í algerðum voða, ef lokunin leiddi til stöðvunar og gjaldþrots. Þá þarf maður ekki að vera í efa um það, að skilningsleysið, sem stj. sýndi framan af lokunartímanum og áður en bankanum var lokað, um þetta atriði, hlýtur að hafa verið hnekkir fyrir allt landið. Þeir vissu vel, þessir menn, sem símuðu aðvaranir af vinsemd til landsins, að það var stj. landsins, sem stóð með brugðinn brandinn yfir Íslandsbanka og vildi láta loka honum og hefir verið svo skilningslaus á eðli og efni málsins, að hún hefir látið í ljós, að það mundi verða til þess að auka og styrkja traust landsins, ef bankinn yrði gerður gjaldþrota. Að það tókst að afstýra lokuninni, varð til þess að bjarga lánstraustinu, sem annars var farið, eins og sjá mátti af þessum símskeytum. Lánstraustinu var bjargað, en ekki ósködduðu. En enginn efi leikur á því, að þessi viðburður hefir ekki verið svo fyrndur á sama ári, að áhrifa hans hafi ekki gætt í lánskjörum, sem stjórnin átti þá kost á erlendis.

Að því er snertir allan aðdraganda þessa máls hér innanlands, vil ég segja, að þessi afstaða, sem stj. landsins tók, var náttúrlega eðlilegur gróður upp úr jarðvegi, sem búið var að herfa og plægja því sviði. Blöð Framsóknarflokksins heldu því fram, að ekkert gerði til, hvernig færi um þessa stofnun og fé þeirra manna, sem ættu þar inni, því það fé væri útlent. Er það undarleg skoðun og illa fallin til að skapa landi þessu lánstraust erlendis, að ekkert geri til, hvernig fari um fé, sem stendur í atvinnufyrirtækjum, ef útlendingar eiga það. En augu manna opnuðust, svo ekki fór eins illa og til var stofnað. Ég fyrir mitt leyti mæli með, að brtt. hv. 4. landsk. verði samþ. Og ég er viss um, að það muni koma upp við þá rannsókn merkileg atriði, sem mönnum eru ekki kunn nú, um aðdraganda að þessari lokun bankans. En að því er snertir till. hv. þm. Ak., sé ég ekki ástæðu til að greiða henni atkv., ef brtt. verður felld. Stj. hefir það á sínu valdi að senda þm. skýrslu; það þarf ekki þál. til þess. En ég er ekki í efa um, að undir öllum kringumstæðum verður skýrslan um aðdraganda að lokun bankans frá núv. stj. svo ófullkomin, að hún verður ekki nægileg. Ég álít ekki gerandi að taka málið til rannsóknar, nema það sé tekið til fullrar rannsóknar.