10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (640)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Jón Þorláksson:

Hv. flm. var að storka okkur stuðningsmönnum brtt. með því, að hann sagði, að úr því að við hefðum ekki mótmælt því, sem hann sagði um viðskipti einstakra manna við bankann, þá hefðum við viðurkennt, að upplýsingar hans voru réttar, og nefndi hann einkum mig til. Ég andmæli þessu harðlaga. En þar sem ég hefi hér engin gögn um þetta efni í höndum, kýs ég ekki að taka þátt í umr. um það að sinni. En þögn mín staðfestir engan veginn „upplýsingar“ hv. flm. Og þegar þess er gætt, að hann sagði, að heimildir sínar væru blaðagreinir, þarf ekki að útlista, hve áreiðanlegar þessar upplýsingar hans munu vera. Um þetta efni verður ekkert sagt, sem byggja má á, nema það sé sótt í skjól og skilríki bankans sjálfs. Gæti ég að vísu sagt margt frá almennu sjónarmiði um þessi stórtöp, þótt mér sé ekki kunnug viðskipti bankans við einstaka menn. Mér er að ýmsu leyti kunnugt það ástand, sem leiddi til tapanna, einkum þó að því er snertir fiskfirma það, sem hv. flm. nefndi. Þetta firma flutti út fisk 1920–21. Fiskútflytjandinn keypti þá mikið af saltfiski fyrir 300 kr. skpd. Nokkru eftir að kaupin voru gerð, í sept. 1920, hófst ægilegt verðfall á fiski, einkum þó saltfiski. Varan seldist dræmt og illa, svo að seljandinn mun ekki hafa fengið nema ca. 100 kr. fyrir skpd. á erlendum markaði. Af þessu leiddi auðvitað geysileg töp, sem fóru með aleigu manna og lánsfé um leið. En þess ber þó að gæta, að þessir peningar fóru allir til framleiðenda og verkafólks í landinu. Auðvitað er hægt að ámæla bankastj., sem lánið veitti, og firmanu, sem það tók. En því verður ekki neitað, að hið tapaða fé dreifðist út um landið, svo að eins tap varð annara gróði.

Hér hefir verið deilt um það, hvort viðunanleg niðurstaða hafi fengizt af bráðabirgðamati þeirra Jakobs Möllers og Péturs Magnússonar. Það er borið fram til stuðnings þeim ummælum, að þetta mat hafi verið rangt, að í lok síðasta árs hafi verið búið að afskrifa 4½ millj. kr. umfram hlutafé. Ef upplýsa skal þetta mál, verður að upplýsa, hvort eitthvað af þessari 4½ millj. stafar ekki frá síðasta ári, sem hefir verið örðugt í ýmsum greinum. Auðvitað er með öllu rangt að telja tap síðasta árs með, þegar um matið 1930 er að ræða.

Niðurstaðan er sú nú, að bankinn hafi átt tæplega 90% fyrir skuldum. Einn bankastjóranna hefir sagt mér, að þessar afskriftir séu metnar eftir því, sem tryggingar mundu seljast á nauðungaruppboði. Ef þetta er rétt, sést, að hér er mjög varlega farið, og er ekki nema gott um það að segja. En auðvitað er ekki rétt að bera þetta saman við matið, sem fór fram áður en bankanum var lokað, eða gert var ráð fyrir, að lokað yrði. Eitt sinn var felldur stór banki í Danmörku, Andelsbanken, og kom á daginn á eftir, að hann hefði átt 80–90% fyrir skuldum. Luku þá allir einum munni upp um það, að ekki hefði verið rétt að fella þennan banka. Fyrirtæki, sem getur skilað 90%, þegar það er gert upp, er mjög vel lífvænt, ef það fær að halda áfram, og getur jafnvel verið álitlegt fyrirtæki, ef þetta er í erfiðu árferði. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að hagur Íslandsbanka hafi verið þannig, að það hafi verið forsvaranlegt og meira að segja sjálfsagt að láta hann halda áfram. Niðurstaðan af bráðabirgðamatinu, sólarhring áður en bankinn lokaði, bendir til þess. Ég er sannfærður um, að ef Útvegsbankanum gengur svo vel, að hann vinnur sig upp, verður dómur framtíðarinnar sá, að Íslandsbanki hafi verið lífvænlegt fyrirtæki, er lokað var. Ég byggi þetta m. a. á dæminu um hinn danska banka, sem var lagður niður, af því að menn voru orðnir hvekktir á bankahrunum þar í landi.

Hæstv. dómsmrh. talaði um afstöðu landsstj. til lokunarinnar og sagði, að stj. væri gefin sök á því, af því að hún hefði ekki getað afstýrt því með kraftaverki, að bankinn lokaði. En vitneskjan um hag bankans sýnir, að hér þurfti ekkert kraftaverk til. Enda er mér persónulega kunnugt um, að það var ekki neitt nýtt áfall, sem olli lokuninni, heldur ýmiskonar aðdragandi og smávægilegir atburðir, sem voru þess eðlis, að lokun hefði ekki komið fyrir, ef hér hefði setið stj., sem var fær um að hafa á hendi stjórn bankamálanna. Hér þurfti ekkert kraftaverk, heldur skilning á því, að það væri þjóðarógæfa, að bankinn lokaði, og vilja til að afstýra því. Annaðhvort hefir hæstv. stj. brostið.

Þegar hæstv. dómsmrh. veifar afleiðingunum, eins og þær koma fram í fjárlagafrv. fyrir 1932, að skattgjaldendur verði að greiða ½ millj. í vexti af framlagi til bankans, má hann ekki ganga þess dulinn, að ábyrgðin á þessu slysi lendir fyrst og fremst á þeirri stj., sem þá fór og fer með æðstu völd í landinu. Og aukin gjöld og minnkandi framfarir vegna þessa verða fyrst og fremst skrifuð á reikning þeirrar stj., sem átti að bjarga þessum málum við, en sigldi skipinu á sker með öllum hinum dýra farmi. Skipið náðist að sönnu af skerinu aftur, með aðstoð góðra krafta, en auðvitað náðist það ekki ólaskað. Nú er verið að borga skemmdirnar með þessari hálfu milljón á ári, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um.

Það var einmitt vegna þess, að núv. stj. tókst ekki að uppfylla þær kröfur, sem fyrirfarandi stj. höfðu uppfyllt á erfiðari tímum og undir erfiðum kringumstæðum.

Sérhver rannsókn þessa máls hlýtur því að sýna og sanna hvað ríkisstj. hefir gert, það er að stuðla að slysförum bankans, og leiða það í ljós, sem hún hefir ógert látið, sem sé að afstýra því, að bankinn yrði að loka. Það er auðvitað þess vegna, af því að till. hv. 4. landsk. markar rannsókninni nægilega rúmt svið, sem hæstv. dómsmrh. er henni andvígur, en ekki af því, að hann þurfi að hræðast, að rannsóknarnefndin yrði hlutdræg í garð núv. stj. Því að hún á að vera kosin í þessari hv. d. með stuðningsmenn hæstv. stj. í meiri hl.