10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (643)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Jón Þorláksson:

Það hefði verið ákaflega ánægjulegt að ræða við hæstv. fjmrh., ef hann hefði komið fyrr með þetta ágrip af sögu bankans, en nú er það of seint. Ég vil þó vekja athygli manna á því, að þótt þetta ágrip sé ófullkomið, þá sýnir það, að ef bankinn gat tapað 20 millj. kr. án þess að fara meir en 4 millj. fram úr sjálfseign sinni, þá hefði hann m. ö. o. getað staðizt 16–17 millj. kr. töp með sínu fé. Finnst mönnum þá vonlaust, að hann hefði getað klárað þessar 4 millj., ef hann hefði fengið að starfa í friði?

Hæstv. fjmrh. talaði enn um eitt atriði, að gengið var að bankanum um greiðslu í árslok 1929, frekar en vænta mátti, að hann gæti leyst af hendi; ekki af því, að eignir væru ekki til, heldur af því, að fé hans var fast. Það sýndi sig, að stj. sem sat að völdum 1926, hafði skilning og nærgætni til að bera og hjálpaði þá bankanum um 1 millj., en stj. 1929 vantaði hjálpsemi og skilning á því, að ekki mátti heimta þessa 1 millj. kr. af bankanum um leið og hann var að draga inn aðra millj. kr. af seðlum sínum. Var þetta aðalundirrót þess, að bankanum var lokað. En þetta snerti ekki fjárhag bankans, því fyrir þessari ½ millj. hafði bankinn sett hinar beztu tryggingar, enda var það ekki stj. Landsbankans, sem rak á eftir, heldur utanaðkomandi ofl., sem komu í ljós í bankaráði Landsbankans, sem fór að skipta sér af þessum eina víxli. Það þarf að upplýsa, hvers vegna það var einmitt þessi víxill, sem var sérstaklega vel tryggður, sem tekinn var fyrir.

Ég ætla ekki að misnota góðvild hæstv. forseta miklu meira, en læt þetta nægja til ábendingar um það, hverja þýðingu það hefir, að landsstjórnin sýni skilning til að gera það, sem þarf, án þess að hætta neinu til.

Hæstv. fjmrh. sagði, að sér væri lokun bankans engin ráðgata. Ég geri ráð fyrir, að svo muni vera, en efast þó um, að hann viti allt. En um það, hve æskilegt það hafi verið að loka bankanum í einn mánuð og láta hann svo á eftir fá stuðning, mundu varla vera skiptar skoðanir. Ef landsstj. hefir verið vitandi vits um þetta, þá má líkja henni við skipstjóra, sem reyndar ekki vill sigla skipi sínu í algert strand, en hugsar sem svo, að það sé bezt að sigla því upp á sker fyrst og losa það svo á eftir.

Ef bankinn hefði verið lagður að velli, þá hefði eftir á mátt deila óendanlega um það, hvort rétt hefði verið að gera þetta eða ekki, en fyrst það var ekki gert, þá var það auðsæ skammsýni valdhafanna að láta bankann verða fyrir því tjóni, sem lokun hans um stundarsakir hafði í för með sér.