10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (645)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Pétur Magnússon:

Ræður hv. þm. Ak. og hæstv. fjmrh. gefa mér ekki ástæðu til langra andsvara. Hv. þm. Ak. hélt því fram, að þögn okkar væri sönnun fyrir því, að hann færi með rétt mál. Að mínu áliti er hún engin sönnun þess, því ég sé enga ástæðu til að ræða þetta mál á Alþingi. Það, sem skiptir máli, eru töp bankans, en ekki hitt, hvaða einstaklingar hafi verið valdir að þeim, og finnst mér það frekar óviðurkvæmilegt að blanda fleiri umr. um þessar sakir inn í umr. á Alþingi.

Ýmsir ræðumenn hafa minnzt á það, að reynslan hafi sýnt, að tap bankans sé meira en gert er ráð fyrir í fullnaðarmatinu í fyrra. Ég neita, að sannanir séu til fyrir þessu. Það er að vísu upplýst, að Útvegsbankinn hafi afskrifað töp, er nema 4½ millj. kr., en það eru engar upplýsingar til um það, hve mikið af þessu tapi kunni að hafa orðið, eftir að Útvegsbankinn tók til starfa. Það má ekki miða hag Íslandsbanka í fyrra við ástandið nú. Þá var ófyrirsjáanlegt að útgerðin gengi eins illa og raun varð á. A. m. k. verða menn, þegar þeir dæma mötin, að taka tillit til þessa atriðis.

Ennfremur voru það nokkur atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. í gær, sem ég vil minnast á. Hann kvað mig sagt hafa, að í öðrum löndum væri regla, að hverjum banka, sem væri í fjáþröng, væri hjálpað af ríkisvaldinu. Þetta hefi ég aldrei sagt, en hitt er annað mál, að ríkisvaldið getur hnýtt banka við sig þeim böndum, að því beri siðferðileg skylda til að hjálpa honum. — Ég held því fram, að svo hafi það verið með Íslandsbanka.

Það er alkunna, að bankinn hefir í mörg ár staðið í nánu sambandi við ríkið, að hann var almennt álitinn ríkisstofnun. Og þessi bönd áttu að verða til þess, að ríkið gerði sitt ítrasta til að hjálpa bankanum.

Hæstv. dómsmrh. segir, að bankanum hafi verið mætt með réttlæti og velvild af núv. stj. En þeirri velvild var nú þannig varið, að þegar bankinn leitar til stj., þá vildi hún ekki einusinni athuga málið. Og réttlæti stj. var það, að þrátt fyrir öll þau rök, sem voru fyrir því, að það væri skylda hennar að bjarga bankanum, þá gerði hún það ekki, fyrr en það gilti hennar eigið líf. Það var sú eina röksemd, sem hún skildi.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að tekizt hefði að fá aðra til að hlaupa undir bagga, og samherjar hans hafa hælt sér af því, að tekizt hefði að fá erlenda aðilja til að leggja Íslandsbanka fé. Ég álít, að þetta sé hæpin fjármálapólitík. Ég efast um, að sá ölmusuháttur borgi sig, að koma krjúpandi að hnjám erlendra stofnana og biðja þær að bjarga okkur. Því við vorum naumast svo illa staddir þá, að við hefðum ekki getað komizt af án hjálpar erlends fjárvalds.

Hæstv. dómsmrh. færði það sem sönnun fyrir, að lánstrausti landsins hefði eigi verið spillt, að Hambrosbankinn hefði sótzt eftir að útvega nýtt lán. Virðist honum nú liggja fremur hlýlega orð til þess banka, enda þótt hann hafi margstagazt á, að skeyti þau, sem hingað bárust frá aðalstj. bankans, hafi verið pöntuð. Slíkar aðdróttanir voru vitanlega ósæmilegar, og er nú gott til þess að vita, ef hæstv. ráðh. vill fara að bæta fyrir þær. — Hinsvegar þarf engan að undra, þó bankinn slæi ekki hendinni móti að hafa milligöngu um útvegun lánsins síðastliðið haust, því það sýnast hafa verið mjög arðberandi viðskipti fyrir hann. Hann stakk fyrst í eigin vasa ¼ millj. kr. og græðir auk þess væntanlega margfalda þá fjárhæð á sölu ríkisskuldabréfanna. En vaxtakjör lánsins voru hinsvegar verri en hjá öllum öðrum sambærilegum lántakendum, er lán tóku um líkt leyti, og vitanlega eru það þau, sem skera úr um lánstraust landsins. Hitt var fyrirfram vitanlegt, að einhver mundi fást til að gera sér fjárútvegunina að atvinnu.

Hæstv. dómsmrh. gat þess, að forsrh. hafi komið sem sendiboði bankaráðs Íslandsbanka, og þess vegna ekki haft afskipti af undirbúningi þessa margumrædda mats okkar Jakobs Möllers. Er ef það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. segir, að fásinna hafi verið að ætla sér að framkvæma mat á bankanum á einum sólarhring, þá bitna þær ásakanir eigi síður á hæstv. forsrh. en á okkur Jakob Möller.

Um niðurstöðuna er það að segja, að ráðh. vill stimpla mig eða brennimerkja fyrir óráðvendni og siðferðisskort, af því að matið hafi reynzt 2–4 fyrir ofan fullnaðarmatið á bankanum. En sá maður, sem kveður upp þessa dóma, er sá hinn sami, sem viðurkennir, að hann sem fulltrúi landsins hafi vísvitandi gefið ranga skýrslu um skuldir ríkissjóðs í sambandi við lántökuna síðastl. haust. Geta menn sjálfir dæmt um, hvor verknaðurinn muni frekar bera vott um skort á rávendni.