16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (660)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í almennar umr. um frv. á þessu stigi málsins, og það því síður, sem fram munu koma við 3. umr. brtt., sem tilefni geta gefið til almennra umr.

Það hefir verið farið fram á, að brtt. þær, sem fram hafa komið við frv., væru allar teknar aftur til 3. umr. Um brtt. fjhn. get ég sagt það, að ég er að vísu fús á að taka hana aftur til 3. umr. til samkomulags. En út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. var að tala um mismun, sem gæti orðið á verðlagsmati hreppanna, þá held ég, að hann geti ekki orðið teljandi, nema réttmætar ástæður séu til. Það er ekki óvandlega valið í nefndina, sem meta á verðlagið, þar sem í henni eiga sæti hreppstjórinn, presturinn og þriðji maður, sem hreppsnefnd kýs. Prestarnir eiga eiginhagsmuna að gæta, að verðlagsmatið sé a. m. k. ekki of lagt, þar sem þeir eiga að taka laun fyrir aukastörf sín eftir verðlagsskrá. Ég get ekki tortryggt valda trúnaðarmenn um það, að þeir af ásettu ráði búi til ranga verðlagsskýrslu. En af tillátssemi við þá, sem tortryggnari eru, mun ég ekki setja mig upp á móti því að taka till. aftur til 3. umr., ef hægt er að búa tryggilegar um þetta atriði, þannig, að þessi vakandi tortryggni geti ekki komizt þar að.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. Dal. tekur brtt. sína aftur við þessa umr., og vil ég

því minnast örlítið á rök hans. réttmæti till. hans er fullkomið álitamál. Það er að vísu rétt, að segja má, að í till. frv. felist það að taka skatt af skatti, eins og hv. þm. orðar það. En slíkt er ekkert einsdæmi eða fátítt. Um hvoruga leiðina, að leyfa frádráttinn eða leyfa hann ekki, er hægt að fullyrða, að hún sé „absolut“ hin rétta. Í skattamálum er ekkert slíkt réttlæti til. En meðalvegurinn getur aldrei verið rangari en yztu línur til hægri eða vinstri. Ég vil líka benda á, að í ýmsum öðrum tilfellum er á sama hátt tekinn skattur af skatti, svo þetta er ekkert einstakt. Tökum t. d. fasteignaskattinn. Fyrst er lagður fasteignaskattur á fasteignirnar, síðan er lagður á þær eignarskattur sem eign í eignaframtali, í þriðja lagi er lagður tekjuskattur á þær tekjur, sem fasteignirnar gefa, og í fjórða lagi leggst svo á útsvar, því alltaf mun tekið tillit til þess, þegar jafnað er niður útsvörunum, ef menn eiga fasteignir. Hér er ekki um að ræða skatt af skatti, heldur margfaldan skatt.

Annars er í þessu máli, eins og ég hefi áður vikið að, um tvær leiðir að velja, eða þó öllu heldur þrjár. Í fyrsta lagi er hægt að fallast á brtt. hv. þm. Dal. og rýra þannig tekjur ríkissjóðs. Í öðru lagi gæti komið til mála að samþ. till. hv. þm. og hækka jafnframt skattstigann sem því svarar. Þriðja leiðin er að fallast á frv. eins og það liggur fyrir.

Ég tel þetta ekki svo stórt atriði, að rétt sé að gera það að miklu kappsmáli, og því vil ég ekki halda uppi löngum umr. um það. Að endingu vil ég þó minna á það, að í fyrra fellst þingið á þá niðurstöðu að fara þá millileið, sem frv. gerir ráð fyrir.

Því er nú haldið fram, að ákvæði 8. og 17. gr. frv., sem heimila að hækka eða lækka tekju- og eignarskatt um ákveðna hundraðstölu með fjárlagaákvæði fyrir eitt ár í senn, komi í bága við 36. gr. stjskr., er svo segir: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka, nema með lögum“.

Gagnvart þessu vil ég benda á það fyrst, að samskonar ákvæði að efni til gilda um þetta atriði t. d. í Bretlandi. Þá vil ég geta þess, að með lögum nr. 53., frá 7. maí 1928, var stj. gefin heimild til að hækka tekjuskattinn af tekjum yfir 4000 kr. um 25%, og var það látið óátalið í þessu tilliti. Ætti þingið með engu móti að geta gefið stj. heimild til þess, sem það hefir ekki heimild á sjálft. Loks vil ég benda á, að 8. og 17. gr. frv. eru nákvæmlega eins orðaðar og í fyrra, er þær voru samþ. athugasemdalaust að þessu leyti hér í deildinni.

Og þar sem fjárl. eru fyrst og fremst lög og í öðru lagi þar sem grundvallarákvörðunin um þetta er í öðrum lögum en, þ. e. í þessum lögum, að svo megi til haga um þennan skatt, sem segir í 8. og 17. gr., þá getur það ekki komið til mála, að gengið sé of nærri ákvæðum stjskr. um þetta efni. Annars er rétt að vísa til forseta um þetta, og náttúrlega verður að hlíta hans úrskurði.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt, en vil aðeins endurtaka, að til samkomulags við þá, sem tortryggnir eru og óttast, að þeir mætu menn, sem verðlagsskrárnefnd skipa, muni geta látið sér detta í hug að byggja verðlagið á einhverju öðru en því, sem þeir telja rétt, þá skal ég taka brtt. n. aftur til 3. umr.