16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (669)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ekkert skil ég í hugsanagangi hv. 1. þm. N: M., ef hann kemst að þeirri niðurstöðu, að ég vilji leggja á tekjuskatt, enda þótt engar tekjur séu fyrir hendi. Ég held, að hv. þm. sé að gera að gamni sínu. Hann veit það ósköp vel, að áður en félagið með 1 millj. kr. hlutafénu gefur upp 30 þús. kr. tekjur, þá hefir það lagt til hliðar af gróða sínum bæði vexti af hlutafénu, 45 þús. kr., og þvínæst 15 þús. kr. til varasjóðs. M. ö. o. hefir félag þetta haft 90 þús. kr. hreinan gróða, en samt er því ekki ætlað að greiða nema 1400 kr. í tekjuskatt. En litla félagið, með 10 þús. kr. hlutaféð, það má ekki greiða sínum hluthöfum nema 450 kr., en verður að greiða á 9. þús. kr. í tekjuskatt. Ef þetta er ekki ranglæti, þá veit ég ekki, hvað ranglæti er. En svo kemur hv. frsm. og fræðir þdm. á því, að ég vilji skattleggja félögin án tillits til þess, hvort þau hafa nokkurn arð eða ekki.