16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (670)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Ákvæði þessa frv. og gildandi laga um það, að hreinum tekjum innlendra félaga og stofnana megi draga 4% af innborguðu stofnfé eða hlutafé, er sambærilegt við persónufrádrátt einstaklinga. Miðast hundraðstala þessi við lægstu innlánsvexti, sem unnizt hefðu á þetta fé, ef það hefði verið lagt á vöxtu. Hinsvegar ber þess einnig að gæta, að hlutafé félags er ekki eign þess, heldur skuld, og þeir vextir, sem félagið greiðir eigendum hlutafjárins, koma til teknaframtals og skatts hjá þeim.

Annars er það skiljanlegt, að hv. þm. Ísaf., sem samkv. kenningum jafnaðarmanna mun ekki viðurkenna, að fé eigi yfirleitt nokkurn rétt á að fá arð, vilji leggja tekjuskatt á, án tillits til þess, hvort um nokkurn raunverulegan gróða er að ræð eða ekki. Tillögur hans ýmsar í þessum málum, t. d. um fasteignaskattinn, benda til þess, að hann myndi vera ekki ófús til að ganga svo langt, að nærri stappar eignarnámi. Þessi orð hv. þm. og afstaða hans yfirleitt til skattamálanna er skiljanleg afleiðing af þessum hugsanagangi hv. þm.