16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (677)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forseti (JörB):

Það hefir verið óskað úrskurðar forseta um það, hvort ákvæði 8. gr. og 17. gr. þessa frv. myndu brjóta í bága við 36. gr. stjskr.

8. gr. frv. hljóðar þannig: „Tekjuskattinn eftir 6. og 7. gr. má með fjárlagaákvæði hækka eða lækka um ákveðna hundraðstölu, allt að 25%, eitt og eitt ár í senn“.

En 36. gr. stjskr. hljóðar þannig: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka, nema með lögum; ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins, né afnotarétt þeirra, nema samkvæmt lagaheimild“.

Með „lögum“ er átt við skattalög, en ekki fjárlög. 73. gr. stjskr. hljóðar svo: „Skattamálum skal skipa með lögum“. Með ákvæðum þessarar greinar er meint, að skattamálum skuli skipa með venjulegum lögum, skattalögum, en ekki fjárlögum.

Tekjur ríkissjóðs eru nær allar lögákveðnar. Tilgangurinn með fjárlögum og fyrirkomulagi þeirra er m. a. að telja beri alla tekjuliðina, og hvern tekjulið með tiltekinni upphæð, og að það skuli gert eftir gildandi lögum í því efni.

Það er að vísu svo, að fjárhæðir tekjuliða eru ekki beint lögákveðnar. Þær fara að miklu leyti eftir efnum og ástæðum gjaldenda, en það er hvorttveggja, sem kunnugt er, á meiri eða minni hreyfingu. En fjárhæð hvers liðs er lögákveðin, að því leyti, að lagt er með lögum ákveðið gjald á, eftir verði gjaldstofns eða magni. Við það gjald er fjárveitingavaldið bundið, og það verður því að áætla verð gjaldstofnsins eða magn og svo að reikna út fjárhæð hvers tekjuliðs samkvæmt því eftir hinu lögákveðna gjaldi.

Þegar þingið hefir talið þörf á því að breyta skattalögum undanfarið, þó sú skattabreyting hafi átt að standa stutta stund, hefir það ætíð verið gert með lögum (ekki fjárlögum), t. d. tollhækkunin, sem gerð var með lögum nr. 6, 29. júlí 1905, og standa átti tvö ár. Ennfremur skattalinunin, sem gerð var 1885 og 1887 á skatti af ábúð og afnotum jarða og lausafjár, og standa átti í tvö ár, sbr. lög nr. 25, 2. nóv. 1885, og lög nr. 17, 4. nóv. 1887. Ennfremur má minna á lög nr. 3, 1. apríl 1924, um bráðabirgðaverðtoll á nokkrum vörutegundum (átti að leggja á 20% af innkaupsverði þeirra) og gilda áttu aðeins til ársloka 1925. Og ennfremur lög nr. 2, 27. marz 1924, um heimild fyrir ríkisstj. að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka, á meðan sterlingspund er skráð í Reykjavík á 25 kr. og þar yfir. Þessum lögum var breytt með lögum nr. 37, 27. júní 1925. Þar er ríkisstj. heimilaði til ársloka 1927 að innheimta þetta gjald, 25% gengisviðauka, þó gengi á sterlingspundi væri þá orðið annað (fyrir neðan 25 kr.). Og enn má benda á lög nr. 36, 7. maí 1928, um heimild fyrir ríkisstj. til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka til ársloka 1930.

Vafalaust mætti og benda á fleira, sem líkt er ástatt um og það, sem nú hefir nefnt verið.

Þess vil ég sérstaklega geta, út af ummælum, sem fram hafa komið um það, að eins standi á um slíka heimild til hækkunar eða lækkunar á skatti, gefna í fjárlögum og væri það gert með öðrum lögum (skattalögum), til þess að hafa skattinn hreyfanlegan, að ég tel, að hér sé ekki um hliðstætt atriði að ræða. Hækkunar- eða lækkunarheimild í skattalögum er gefin þar, með því lagaboði, er slík mál eiga að sæta, og framkvæmdarvaldinu veittur réttur til þess að ákveða, hvort það notar heimildina eða ekki, en sé heimildin notuð, er það gert samkv. þeirri skilorðslausu lagaheimild. Ef hinsvegar slík skattbreyting er látin vera komin undir ákvæði fjárlaga, er þar með farið út fyrir það svið, sem fjárlögum er ætlað að ná yfir samkv. stjskr.

Í gildandi skattalögum vörum er ekkert ákvæði, sem heimilar það, að á skatti þeim, er þau ákveða, megi gera breytingu með einföldu fjárlagaákvæði. Það er því ekki við því að búast, að breyting á þeim hafi verið gerð nema með lögum (ekki fjárlögum). Enda hefir því ætið verið fylgt.

Samkv. 8. gr. þessa frv. er heimild gefin til þess með fjárlagaákvæði, að breyta megi tekjuskattinum (sem ákveðinn er í 6. og 7. gr. frv.), hækka hann eða lækka um ákveðna hundraðstölu, allt að 25%, eitt og eitt ár í senn. (Hið sama gildir um eignarskattinn samkv. 17. gr.) sú breyting, sem þannig yrði gerð með fjárl.ákvæðum á skattinum (eftir á skv. 8. og 17. gr.), hvort heldur væri til hækkunar eða lækkunar, væri þá innan þess ramma, er greinarnar tiltaka, og væri því hægt að segja, að þesskonar skattbreyting væri skv. ákvæðum þessara skattlaga (ef frv. yrði að lögum með þessu ákvæði). Og sú ákvörðun, sem þannig væri með fjárlagaákvæði tekin, bryti á engan hátt í bága við ákvæði 36. gr. stjskr., þessi: „Engan skatt má á leggja né breyta né aftaka, nema með lögum“, vegna þess, að heimildin til þessarar breytingar á skattinum er að finna í þessum skattlögum. En þegar þess er nánar gætt, hvernig breyting skattsins kemur fram, hvort heldur er til hækkunar eða lækkunar, þá verður skatturinn ýmist meiri eða minni á hverri einingu af óbreyttu verði gjaldstofnsins, en það ákvarðast af fjárlagaákvæðinu.

T. d. af 4000 kr. skattskyldum tekjum á skv. 6. gr. frv. að greiða í skatt 72 kr. sé skatturinn hækkaður um 25%, þá hækkar hann um 18 kr. og skatturinn yrði þá af 4000 kr. skattskyldum tekjum 90 kr. En ef um 25% lækkun er að ræða, þá verður skatturinn 54 kr.

Þegar því heimild 8, gr. þessa frv. eða 17. gr. um breyting áa skattinum með fjárl.ákvæði yrði notuð, þá væri ýmist skattur með því að nokkrum hluta á lagður eða að nokkrum hluta af tekinn. Og vitaskuld er þá líka með slíkri ákvörðun skatti breytl.

En samkv. 36. gr. stjskr. mega slíkar skattbreytingar aðeins verða samkv. lögum, sbr. og ávæði 73. gr. stjskr.:

Skattamálum skal skipa með lögum“.

þessu efni verður og að hafa í huga þann mun, sem er á skilyrðum fyrir afgreiðslu frárl. frá þingi og annara laga.

Ég tel því ákvæði 8. og 17. gr. þessa frv., ef að lögum yrði, ekki geta samrýmzt ákvæðum 36. gr. stjskr., og getur því 8. og 17. gr. frv. ekki komið til atkv. Hljóta þær því að falla burt úr frv., og greinatala þess breytist samkv. því.